144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. ræðumanni Helga Hjörvar fyrir ræðuna og langar að nota fyrra andsvar mitt til að eiga orðastað við hann um 1. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Þetta hefur oft verið kallað fiskistofuákvæðið og var kannski meginmál hv. ræðumanns. Mig langar að setja þetta í samhengi við það að nú er annað frumvarp sem liggur fyrir Alþingi þar sem kveðið er á um að fella eigi ákvæði um aðsetur Tryggingastofnunar úr lögum og færa það til ráðherra að ákveða staðsetningu hennar. Þegar ég hef í andsvörum spurt hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans út í þetta ákvæði hvort þetta sé ekki líklegt til að ýta undir áhyggjur af illa ígrunduðum geðþóttaákvörðunum og jafnvel einhvers konar kjördæmapoti, þá hafa þeir vísað í að það gildi engu að síður stjórnsýslulög sem hæstv. ráðherrar þurfa að fara eftir. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji í ljósi fiskistofuklúðursins, ætla ég að leyfa mér að segja, að við getum treyst á það og hvort við höfum einhver fordæmi sem við getum hangið á að þessi málaumbúnaður sé hreinlega nógu góður.