144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að efni frumvarpsins er auðvitað að auka vald ráðherranna. Það er sömuleiðis hárrétt hjá þingmanninum að það var meginniðurstaða rannsóknarskýrslu Alþingis að við ættum að fara í þveröfuga átt, þ.e. að takmarka vald ráðherranna og hafa með þeim ríkara eftirlit héðan úr þinginu. Þetta verkfæri, að geta hótað því að flytja stofnanir eða búa einfaldlega yfir því valdi, þótt það sé hvergi orðað, getur auðvitað haft áhrif til að auka ráðherraræðið. Við höfum helst takmarkað ráðherraræði í okkar sögu með því að hafa tiltölulega sterkar sjálfstæðar stofnanir, eins og Fiskistofu og ýmsar aðrar, en frekar veik ráðuneyti og það er visst áhyggjuefni á síðari árum þegar við höfum verið að efla ráðuneytin og menn hafa í ríkari mæli verið að reyna að ná stofnunum inn undir ráðuneytin eða styrkja tök ráðuneytanna á þeim við sameiningu stofnana og með öðrum slíkum aðferðum.

Það er líka ástæða í þessu sambandi til að huga að þeim ákvæðum frumvarpsins sem lúta að flutningi starfsmanna, því að um leið og það getur verið mikilvægt að hafa sveigjanleika til að starfsfólk geti farið milli staða þá er auðvitað líka mikilvægt að það verði ekki tæki í höndum ráðherra til að svelta starfsmenn til hlýðni eða beita þá nauðungarflutningum án þess að flytja stofnanir þeirra heldur með flutningum manna á milli verkefna. Það þarf að tryggja alveg sérstaklega vel að þetta verði ekki einhvers konar valdstjórnartæki ráðherranna yfir embættismönnum sem eiga að gæta að lögum og reglum.