144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það fari betur á því að aðrir en forsætisráðherra hafi leiðbeiningarhlutverk um siðareglur í stjórnsýslunni. En það er margt rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, m.a. um samráðið. Það er auðvitað ótrúlegt að fylgjast með ríkisstjórn sem æ ofan í æ fer fram með mál án samráðs og eins og setur undir sig hornin og hleypur af stað og hleypur alltaf á sama vegginn og nær fæstum málum fram vegna þess hvernig hún sjálf stendur að verki.

En þessi umræða um staðsetningu stofnana er öðrum þræði dálítið gamaldags, svolítið úrelt og einmitt þess vegna dró ég fram stefnumörkun okkar í Samfylkingunni um störf án staðsetningar, vegna þess að hvar eru opinberar stofnanir staðsettar í dag? Ég hugsa að Píratar mundu segja að þær væru staðsettar á internetinu. Þangað sækir fólk auðvitað í æ ríkari mæli þjónustu sína, upplýsingar, eyðublöð, umsóknir, fyrirspurnir og hvað það nú er sem menn þurfa að sækja til opinberra stofnana. Þær breytingar gera það að verkum að það er engin nauðsyn á því að skrifstofan, borðin, stólarnir og fólkið sé allt saman á sama staðnum og allt saman hér í Reykjavík. Fólk á sem mest að geta unnið að þessum störfum einfaldlega þar sem það býr, en ég held að við eigum að forðast eins og heitan eldinn að flytja fólk nauðungarflutningum starfa sinna vegna. Það er eitthvað sem á að tilheyra ekki síðustu öld, ekki öldinni þar á undan heldur myrkum miðöldum.