144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir húslesturinn þarna undir lokin. Ég var búin að gleyma hvað þetta var galið, en það er ágætt að rifja það upp. Maður veltir því fyrir sér hvort hæstv. forsætisráðherra telji ekki að nú sé komið að því að ríkisstjórnin sé orðin nógu góð og hún búi yfir réttum skoðunum en ekki röngum. Það hlýtur að vera. Maður hlýtur að draga þá ályktun að frumvarpið hvíli á þeirri vissu hæstv. forsætisráðherra, þáverandi leiðtoga í stjórnarandstöðunni.

Mig langar að öllu gamni slepptu að spyrja hv. þingmann. Ég hef töluvert verið að velta fyrir mér tilurð þessa máls. Það er ekki eins og þetta tiltekna mál hafi sprottið upp úr engu heldur er það miklu frekar þannig að það verður til vegna pólitískrar þarfar til að búa til lagalegan umbúnað utan um einhvers konar kast eða einhvers konar bilun, þ.e. útspilið með Fiskistofu. Ég get ekki neitað því að ég staldra við það sífellt oftar í verkum þessarar ríkisstjórnar að það verði til einhvers konar eftiráskýringar. Við þekkjum dæmi um SMS-sendingar þar sem verið er að veita styrki o.s.frv. Það eru ófagleg vinnubrögð og stök köst sem leiða svo til þess að menn ganga á vegg og átta sig á því að þeir verða að vinna málið betur og jafnvel faglegar o.s.frv., en þetta er náttúrlega ekki góður grunnur til þess að byggja löggjöf á. En það er það sem virðist hafa gerst þarna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það hvaða aðstæður geta komið upp sem gætu leitt til þess að bregðast þyrfti hratt við með að færa stofnun úr einum stað í annan, sem þyldi ekki þá bið sem yfirferð þingsins fæli í sér.