144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:17]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna aftur til ræðu sem hæstv. forsætisráðherra flutti í maí árið 2011:

„Ég held að við þurfum að skoða málið frá grunni, leggja það til hliðar og vinna að breytingum á Stjórnarráði Íslands í sátt og samlyndi, reyna að ná sem víðtækastri samstöðu og að ríkisstjórnin sýni að henni sé alvara með öllum þessum yfirlýsingum sem til þessa hafa reynst innihaldslausar. Hún fær tækifæri núna til að sýna að einhver alvara sé að baki þegar menn segja að þeir vilji ná samstöðu um málið. Ef ekki í þessu máli hvenær þá? Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands ætti að sýna gott fordæmi en ekki að samþykkja illa unnið frumvarp um að efla framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafans. Þvert á móti á að sýna gott fordæmi með vel unnu frumvarpi sem styrkir lýðræðið og eflir stöðu löggjafans á kostnað framkvæmdarvaldsins.“

Það er auðvitað mikil hræsni í því fólgin að koma sjálfur með illa unnið frumvarp inn til þingsins eftir að hafa sagt þetta fyrir fjórum árum og ætlast til þess að það sé samþykkt í þinginu. Það er sýnidæmi um að maður sem talar svona og hagar sér á þennan hátt á ekki að hafa yfirumsjón með siðferðilegum viðmiðum. Það blasir við.

Hvað varðar síðan réttar og rangar skoðanir hélt ég að það væri ekki neitt slíkt, það væru aðeins ólíkar skoðanir og við værum hérna á vettvangi sem er til þess fallin að reyna að leiða okkur að einhverri niðurstöðu með meirihlutaræði. En valdhafi sem lítur svo á að hann sé með réttar skoðanir og góðar skoðanir og aðrir séu með rangar skoðanir er hættulegur valdhafi, vegna þess að hann telur sig geta gert hvað sem er í þágu sinnar réttu og góðu skoðana. Þess vegna er þetta mál jafn varhugavert og raun ber vitni.