144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála þessu meginsjónarmiði að það er mikilvægt að tryggja gagnsæi í stjórnsýslunni. Engu að síður hljótum við oft að hafa óljós landamerki þarna á milli því innan stofnunar kunna að vera starfandi einstaklingar sem óska eftir því að verða færðir til í starfi, það er ljóst að þeir nýtist betur við önnur verkefni, hugsanlega innan sömu skrifstofueiningar o.s.frv. Þarna eru landamærin stundum óljós. En einmitt þess vegna er mikilvægt að það sé stöðugt í gangi vinna um viðmiðin sem skuli höfð að leiðarljósi þegar kemur að ákvörðunum af þessu tagi.

Ég vakti athygli á því í ræðu minni í gær að í nefndinni sem hefur slíka vinnu með höndum samkvæmt núverandi lögum koma fulltrúar frá stéttarfélögunum, frá verkalýðshreyfingunni, fulltrúum starfsmanna, frá forstöðumönnum, en einnig er leitað eftir utanaðkomandi áliti og þá frá Háskóla Íslands. Ég tel þetta vera mjög góða blöndu. Ég er ekki viss um að hægt sé að setja skýr lagafyrirmæli um hvernig skuli bera sig að í öllum tilvikum, en einmitt vegna þess er þörf á því að hafa slíka umræðu stöðugt í gangi.