144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það hefur auðvitað óneitanlega markað umræður um þetta mál að því tengist þessi ólánlegi áformaði flutningur Fiskistofu til Akureyrar, ólánlegi í skilningnum hvernig að því máli var staðið eða hvernig það fór af stað. Ætli það sé ekki best að vinda sér í að ræða það mál í tengslum við þetta áður en vikið er að öðrum þáttum frumvarpsins.

Það skal tekið fram að sá sem hér talar er ekki endilega þeirrar skoðunar að það þurfi að vera bundið í lögum í hverju einasta tilviki hvar ríkisstarfsemi eða stofnun hefur aðsetur. Það kemur að sjálfsögðu til greina og er hvort sem er sums staðar í lögum, enda hefur lengi verið mælt fyrir um það eða var, að ráðherra gæti haft ákvörðunarvald um staðsetninguna nema öðruvísi væri mælt fyrir um í lögum. Hitt er alveg ljóst í ljósi reynslunnar, meðal annars af þessu máli og ekki bara því, að einhvers konar lagarammi þarf að liggja ljós fyrir til að koma í veg fyrir slys í þessum efnum, jafnvel þó að hann feli ekki endilega í sér að sjálf staðsetningin í skilningnum höfuðstöðvar tiltekinnar stofnunar eða starfsemi séu festar niður með lögum.

Í ljósi þeirrar lagatúlkunar sem Hæstiréttur hefur kveðið upp úr um, að vegna þess hvernig stjórnarskráin er orðuð um aðsetur ráðuneyta í Reykjavík að þá í raun og veru yfirfærist það á stofnanir og starfsemi undir ráðuneytunum nema öðruvísi sé fyrir um mælt. Þá þurfa menn auðvitað að finna einhverja leið í þeim efnum. Að sjálfsögðu ætla ég ekki hér á gamals aldri að fara að gerast talsmaður þess að eðlilegt sé að það sé sérstaklega reyrt niður í lög að eiginlega öll starfsemi ríkisins sé í Reykjavík, ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er þvert á móti talsmaður þess að það séu eðlileg sjónarmið að dreifa opinberri starfsemi um landið og að starfsemi sem fellur vel að því að vera staðsett til dæmis á þeim svæðum sem eru tengd þeim atvinnugreinum sem kannski eru með þungamiðju sína á landsbyggðinni. Það eru eðlileg og gild sjónarmið að það sé haft í huga þegar við tölum um dreifingu hinnar opinberu starfsemi, því að öll borgum við landsmenn okkar skatta hvar sem við búum í landinu og oft finnst mönnum halla dálítið á að þeir fái þá til baka norður í Grímsey eða austur á Bakkafirði, ekki troða þeir opinberri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu mikið um tær. Þess vegna er eðlilegt að leitað sé færa til að dreifa þessari starfsemi eins og kostur er. En það þarf að vanda til verka. Atburðarás af því tagi sem hófst með þeirri óðagotstilkynningu um að nú yrði Fiskistofa tekin í einu lagi með húð og hári og flutt norður á Akureyri var ekki góð. Því miður vinnur það ekki með þeim málstað að eðlilegt sé að horfa til dreifingar opinberrar starfsemi um landið þegar svoleiðis er að verki staðið, þegar ekki er horft til hagsmuna starfsmanna, þegar ekki er horft til faglegra sjónarmiða og haldið utan um þá þekkingu sem byggð er upp í stofnunum og ekki er færður fram almennilegur rökstuðningur fyrir því að þetta sé þá gert.

Þetta tengist þeirri meinlegri villu að hugsa um opinberar stofnanir eins og þær væru kassi sem hægt væri að taka upp með höndunum eða hífa upp með krana og setja á flutningabíl og flytja á nýjan stað. Þannig er þetta ekki. Opinberar stofnanir eru eins og flestur annar rekstur og flest önnur starfsemi fyrst og fremst fólk. Hitt eru umbúðir utan um það, hús og búnaður. Þar í liggja mistökin. Ég er þeirrar skoðunar að Fiskistofa geti verið og verði, ef af verður, prýðilega staðsett á Akureyri og það séu ágætisrök fyrir því að meginþungi starfsemi hennar verði þar, þ.e. einhvers konar höfuðstöðvar. Fiskistofa er sem betur fer ein af þeim stofnunum eðli málsins samkvæmt sem er hvort sem er með dreifða starfsemi um allt land og að sjálfsögðu eðlilegt að einhver talsverður hluti hennar sé líka á suðvesturhorninu, því að hér er útgerð og hér eru störf sem þessu máli tengjast.

Hvar fóru menn þá út af sporinu í þessu máli? Jú, ósköp einfaldlega með því að þetta var ekki rétt formúlerað frá byrjun. Það sem átti að segja og undirbúa og gera með vönduðum hætti, ef menn vildu hrinda þessari pólitísku stefnumótun í framkvæmd, var að koma og segja, og auðvitað byrja á því að kynna það starfsfólki o.s.frv.: Nú hefur verið eða er í mótun sú pólitíska stefna að þungamiðja starfsemi Fiskistofu í skilningi höfuðstöðva hennar færist í áföngum á starfsstöð hennar á Akureyri, og á einhverjum tilteknum tímapunkti verði höfuðstöðvar hennar komnar þangað í skilningnum forstöðumaður. Þetta munum við gera svona og svona með vönduðum undirbúningi í samráði við starfsfólk og það verður engum sagt upp og enginn neyddur til að flytja ef það hentar honum ekki. Við löðum fram þessar breytingar með starfsmannaveltu og nýráðningum á næstu árum og gerum þetta skipulega og af viti, ekkert vandamál.

Ég held að engar öldur hefðu risið út af því og þetta hefði jafnvel getað gengið hraðar fyrir sig en margir áttu von á, því að það mun auðvitað að líkindum verða þannig að mörgum finnst gott að vera með sína starfsstöð í höfuðstöðvum stofnunar, þar sem þungamiðja starfsemi hennar verður. Og ef vel er að henni búið þar, hún í góðu umhverfi, eins og hún verður tvímælalaust á Akureyri, þá kvíði ég því ekki að á svo öflugum stað yrði ekki auðvelt að manna þessar stöður sérfræðinga. En þeir sem það kjósa og eru vegna fjölskylduaðstæðna eða af öðrum ástæðum bundnir núverandi starfssvæði hennar í Hafnarfirði eða á höfuðborgarsvæðinu ættu þess kost að halda þar áfram störfum, og ekkert einasta vandamál að skipuleggja verkefnin þannig að þeirra starfskraftar nýtist til fulls og þeir fái notið sín.

Um þetta eru mýmörg dæmi í stórum samsettum stofnunum sem starfa um allt land og ég ætla að nefna ríkisskattstjóraembættið í þeim efnum, sem starfaði í níu litlum skattstofum og höfuðstöðvum í Reykjavík þar til fyrir fáeinum árum þegar landið var gert að einu skattumdæmi, engum manni sagt upp en störfum hefur síðan fjölgað á landsbyggðinni, af því að meðvituð stefna var tekin um það að nota kosti þess að hafa stöðugan vinnumarkað og gott umhverfi á Siglufirði eða Akureyri til þess að færa ýmsa þjónustustarfsemi þangað, eins og þjónustuver skattsins o.fl. Þannig er nákvæmlega hægt að fara að þessu og hefði betur verið gert í þessu tilviki.

Menn hafa lent í miklum hremmingum með þetta, það er dapurlegt. Maður tók út fyrir það hvernig þetta kom út gagnvart starfsmönnum og ég get alveg fullyrt að Akureyringar höfðu ekki gaman af því heldur að dragast inn í þessa umræðu og alsaklausir af málinu. En auðvitað og skiljanlega ætla þeir ekki að fara að skipta um skoðun á því að það sé gott að horft sé til m.a. Akureyrar þegar dreifing opinberra starfa um landið er höfð undir. Sérstaklega þegar um er að ræða stórar stofnanir eða talsvert mikinn mannafla þar sem reynir verulega á fagþekkingu, sérfræðiþekkingu, menntun, háskólamenntun o.s.frv., þá vitum við að það hefur mikla kosti að vera á það stórum vinnumarkaði eins og Akureyri, Eyjafjarðarsvæðið og Mið-Norðurland er upp á störf fyrir maka og annað í þeim dúr. Þar er samfélag sem hefur alla burði til að takast á við svona lagað, öflugur háskóli, næststærsta og annað af tveimur sérgreinasjúkrahúsum í landinu, tveir öflugir framhaldsskólar og með tilkomu Vaðlaheiðarganga verður kominn yfir 30 þúsund samtengdur atvinnu- og samskiptamarkaður innan daglegrar sóknar á Eyjafjarðarsvæðinu og í vestanverðri Þingeyjarsýslu. Því verður ekki haldið fram með neinum rökum að þar sé ekki gott umhverfi fyrir slíka stofnun.

Allt er þetta svo annars eðlis og auðveldara þegar um er að ræða flutning á nýjum stofnunum, stofnsetningu og staðsetningu þeirra. Þá er auðvitað alveg gráupplagt að nota tækifærið og á að vera. Menn þurfa að fara miklu varlegar og vanda sig meira þegar í hlut eiga gamlar og rótgrónar stofnanir, það liggur bara í hlutarins eðli. Þess vegna kæmi til dæmis til greina í lögum að hafa einhver viðmið varðandi það hvernig aðferðafræðin skuli vera, að tiltölulega sjálfstætt ákvörðunarvald liggi um það hjá stjórnvöldum hvar nýrri starfsemi er komið á fót. Hugsanlega sé þetta léttara í vöfum þegar um er að ræða áherslubreytingar í því hvar þungamiðja starfsemi byggist upp eða leggst í stofnunum sem eru hvort sem er dreifðar um allt land. En þegar í hlut á kannski stofnun sem er tiltölulega einsleit með alla sína starfsemi á einum stað og með umtalsverðan mannafla þarf að fara alveg sérstaklega að því ef menn ætla að hreyfa við henni frá núverandi staðsetningu hennar.

Sá sem hér talar þykist hafa pínulitla reynslu af þessu, ég hef staðið að því að flytja höfuðstöðvar ríkisstofnunar út á land þegar Skógrækt ríkisins flutti frá Reykjavík til Egilsstaða 1990. Það var talsvert ferli og það tók í á köflum en menn reyndu að vanda sig. Byrjað var á því að fara til Alþingis og afla fullnægjandi lagaheimildar fyrir því. Rætt var við hvern einasta starfsmann, sumir voru ósammála. Fráfarandi skógræktarstjóri, blessuð sé minning hans, var ósammála en hann var að láta af störfum og sætt var færis að láta flutninginn fara fram þegar nýr skógræktarstjóri tók við störfum. Nokkrir af eldri starfsmönnum Skógræktarinnar í Reykjavík vildu ekki flytja og hvað var þá gert? Jú, það var starfrækt starfsstöð á vegum Skógræktarinnar hér í Vesturbænum, steinsnar frá þinghúsinu í allmörg ár þar sem nokkrir af eldri starfsmönnum höfuðstöðvar Skógræktarinnar luku sínum starfsferli og reynt að gera það allt saman í eins mikilli sátt við hvern og einn og mögulegt var. Nýráðningar fóru allar fram inn á Egilsstaði og þar hefur verið rekin kraftmikil miðstöð skógræktar í landinu síðan í helsta skógræktarhéraði landsins, og hvar ætti Skógrækt ríkisins að vera ef ekki til dæmis á Fljótsdalshéraði þar sem eru langflest tré? Það er líka gott að hafa í huga að ef efnisleg og gild rök standa undir þeirri niðurstöðu sem menn komast að um staðsetningu viðkomandi stofnunar.

Ég setti á fót að minnsta kosti eina nýja ríkisstofnun — ég er nú að tala hér um fornöld, virðulegur forseti, þegar ræðumaður var ráðherra á hinni öldinni — ekki stóra í sniðum, tveggja, þriggja manna eining sem tók að sér hagsýslugerð og hagtalnavinnslu fyrir landbúnaðinn sem enginn sinnti að ráði fram að því. Hagþjónusta landbúnaðarins hét sú ágæta, litla stofnun og starfaði á Hvanneyri með ágætum í ein 15 ár. Ég flutti síðan eina mjög stóra stofnun, Vita- og hafnamálastofnun, ekki ég auðvitað en stóð að því sem ráðherra, að vísu ekki langt, það var hérna yfir Kópavogslækinn, úr Vesturbæ Reykjavíkur í Kópavog. Það var vissulega flutningur og ég man ekki eftir neinu laganöldri yfir því, en það hefði sjálfsagt verið alveg jafn ólöglegt í þessum skilningi laganna og dómum Hæstaréttar eins og flutningur Landmælinga upp á Akranes, þó að ég viti ekki hvort lagaumhverfið var nákvæmlega eins þá.

Þetta er einfaldlega spurning um vönduð vinnubrögð og að vanda sig og þar hefði mátt takast betur í þessum efnum. Reyndar má hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eiga það, hann er maður að meiri að hann hefur viðurkennt, ég segi nú ekki beðist afsökunar, en alla vega viðurkennt það að þarna var ekki nógu vel að máli staðið. Hann er hugsanlega að taka að einhverju leyti á sig sök fyrir annan mann í þessu tilviki, en ekki skal ég segja meira um það. Það eru hagsmunir starfsmanna sem þarna skipta auðvitað öllu máli og að tryggja réttindi og stöðu þeirra og koma sómasamlega fram við þá og það eiga menn að hafa í huga í öllu þessu máli.

Í öðru lagi varðandi siðareglur eða siðferðisviðmið í stjórnsýslunni, það hafa aðrir ræðumenn komið inn á á undan mér og ég deili algjörlega efasemdum með minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fram koma í nefndaráliti þeirra á bls. 2 í þeim efnum. Ég sé ekki hvað er unnið með því að leggja niður samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið, ég held að það sé gott að hafa einhvern slíkan aðila. Þar erum við ekki að tala um einhverja stóra stofnun eða mikið batterí, heldur að valinn hópur sérfróðra aðila á þessu sviði sé til taks til að vera til ráðuneytis og samhæfingar í þeim efnum. Forsætisráðuneytið, með fullri virðingu fyrir því, er ekkert endilega sérfróðast allra í þeim efnum í landinu, ágætir háskólamenn og fleiri eru hugsanlega betur færir í þeim efnum.

Varðandi Fiskistofu, áður en ég gleymi því, er ég hins vegar þeirrar skoðunar að auðvitað verður að botna það mál, það verður að klára það. Ekki er hægt að láta þetta óvissuástand hanga lengur yfir þó að því hafi að einhverju leyti verið eytt með síðustu yfirlýsingum ráðherra um hvernig það verði svona að miklu leyti bakkað í raun og veru í það far sem átti að leggja upp með í upphafi og ég var að lýsa áðan hvernig ég hefði séð fyrir mér. En engu að síður þarf að slá botninn í þetta hvað sem líður afdrifum þessa frumvarps.

Ég ætla aðeins að staldra við 6. gr. frumvarpsins þar sem talað er um skipulag aðalskrifstofu ráðuneyta og að skipta henni upp í fagskrifstofur sem eðlilegt er. En jafnframt kveðið á um að heimilt sé að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem eru starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Slíkum starfseiningum stýrir embættismaður, í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.

Ég held ég átti mig aðeins á því hvert menn eru að reyna að fara hér með þessum texta, en ég er ekki viss um að þetta dugi, þ.e. sé ætlunin meðal annars að skapa möguleika á mjög sjálfstæðum aðskildum einingum eða ráðuneytisstofnunum tengdum við ráðuneyti en þó sjálfstæðum, þá er þetta ekki endilega fullnægjandi lagabúnaður. Menn hafa nefnt í þessu sambandi að inn í svona einingu eða ráðuneytisstofnun væri kannski mögulega hægt að færa eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum. En þarf þá ekki að vera betur um það búið, um sjálfstæði slíkrar einingar og hvernig hún er þó tengd ráðuneytinu og yfrstjórn, reyndar segir hér ráðuneytisstjóra? Þetta held ég að hefði mátt athuga betur. Ég er alls ekki að leggjast gegn þessari hugsun í sjálfu sér, kann vel að vera að þetta geti verið lausn á tilteknum málum þar sem menn vilja aðgreina alveg frá daglegri stjórnsýslu og daglegum rekstri ráðuneyta tiltekin verkefni sem séu sjálfstæð og afmörkuð í sjálfstæðri einingu eða stofnun. En þá þarf líka lagaumbúnaðurinn að hæfa því sem menn ætla sér að ná fram. Er það armslengd sem uppfyllir það sem við tölum venjulega um sem armslengdarsjónarmið? Hvers konar sjálfstæði eða óhæði er það? Sérstök starfseining eða ráðuneytisstofnun er ekki endilega sama og sjálfstæð starfseining eða ráðuneytisstofnun.

Ég hef nefnt þetta áður með siðareglurnar, herra forseti, og held ég þurfi ekki að fjölyrða um það. Það eru svo sem fleiri atriði í frumvarpinu sem ég staldraði aðeins við önnur en þetta með siðaviðmiðin og aðsetur stofnana. Nefna mætti þar sveigjanlegri skipulagningu ráðuneyta, sem ég sé svo sem ekki að verði endilega sveigjanlegri hér, útbúnir eru aðeins fleiri möguleikar, ef við tölum um þessar sjálfstæðu einingar eða ráðuneytisstofnanir, og svo aukinn hreyfanleiki starfsmanna.

Ég er ekki andvígur því að hægt sé að hreyfa til mannafla, til dæmis milli ráðuneyta innan Stjórnarráðsins og jafnvel ráðuneyta og stofnana. Það getur haft sína kosti að geta það, sérstaklega ef uppi eru erfiðar aðstæður, óvænt og mikil verkefni hrúgast inn á menn eins og gerði hér eftir hrunið. Þá getur verið mjög gott að geta nýtt sérfræðiþekkingu og mannafla með eins skilvirkum hætti og mögulegt er og menn verða að hjálpast að, jafnvel lána menn, lána starfsfólk milli stofnana og ráðuneyta þannig að hægt sé að vinna verkin. En það verður auðvitað að gæta alltaf og í hverju tilviki mjög vel að því að það sé ekki á kostnað réttinda starfsmanna og þeir séu í engum þvingunaraðstæðum ef bornar eru upp óskir við þá um slíkt. Það er það sem ég hef áhyggjur af, jafnvel þó að menn segi að þetta sé að undangengnu samráði, ekki bara við viðkomandi ráðherra og forstöðumann stofnunar heldur líka starfsmannsins sjálfs. En munum þá að ekki er víst að starfsmaðurinn sé að öllu leyti í þægilegri aðstöðu til að segja nei ef hann vill vera kyrr en fær eindregnar óskir frá ráðherra sínum og jafnvel forstöðumanni stofnunar um að færa sig um set og fara í einhver önnur verkefni.

Þar vakir líka á bak við sú hætta að menn standi í svona löguðu til þess að færa til einhvern starfsmann sem árekstrar hafa orðið við, án þess að afstaða sé tekin til þess hver ber þar meiri ábyrgð eða minni. Það getur verið sjálfstæður starfsmaður sem hefur staðið á rétti sínum þannig að einhverjum ekki líkar í hans ráðuneyti eða stofnun. Og það er nú svo sem ekki eins og það hafi ekki gerst áður í Íslandssögunni að þá sé farið í að reyna að finna einhverjar leiðir til að parkera viðkomandi manni einhvers staðar úti í horni, einum á skrifstofu yfir sjálfum sér eða eitthvað því um líkt. Og auðvitað á stjórnsýslan ekki að ganga þannig fyrir sig. Það á að takast á við slík mál og leysa þau með faglegum og vönduðum vinnubrögðum og það verður alltaf að gæta að ýtrasta rétti starfsmannsins í þeim efnum.

Að lokum aðeins um 2. gr. þar sem talað er um hvernig bóka skuli samskipti ráðherra og mikilvæg tíðindi eða upplýsingar sem þeir komast yfir á fundum eða í samskiptum, formlegum eða óformlegum. Ég ætla ekki að halda því fram að textinn sem rataði þarna inn 2011 hafi verið fullkominn, ég minni bara á ástæður þess að þetta var fært sérstaklega inn, það voru niðurstöður úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég vona svo sannarlega að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til sé ekki ætlunin að bakka eitthvað út úr því að slík samskipti séu skráð og upplýsingar veittar um þau og gagnsæi eins mikið og mögulegt er, heldur sé þetta þá frekar í hina áttina.

Þetta var það litla sem ég vildi segja og það litla sem ég kom að, virðulegur forseti, í þessari ræðu.