144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi svo sem í ræðu minni reynt að glíma við eða svara þessari spurningu í sjálfu sér, um hinn svokallaða aukna sveigjanleika í færslu starfsfólks, og þá ekki lengur bara innan Stjórnarráðsins milli ráðuneyta, sem hv. þingmaður minnti réttilega á að var stuðlað að á síðasta kjörtímabili, heldur líka lóðrétt úr stofnun upp í ráðuneyti eða úr ráðuneyti niður í stofnun.

Ég er að sjálfsögðu sammála því að það þarf að girða vandlega fyrir það, eins og hægt er, að geðþótti eða nokkurs konar misnotkun á slíkum heimildum geti átt sér stað. Það þarf að passa upp á réttindi starfsmannsins. Ein möguleg leið væri til dæmis að hafa það sem reglu að slíkt væri þá jafnan gert þannig að um einhvers konar tímabundna ráðstöfum væri að ræða og starfsmaðurinn ætti rétt á og héldi sinni gömlu stöðu og gæti í sjálfu sér horfið til hennar þegar hann vildi eða á einhverjum tíma.

Það getur líka haft ýmsa kosti, eins og ég segi, fyrir skipulagningu vinnunnar, til að dreifa álagi, til að takast á við tímabundin átaksverkefni, sem þarf að vinna á einum stað frekar en öðrum, í stofnun eða ráðuneyti.

Varðandi staðsetninguna síðan — jú, jú, ég er algörlega sammála því að störf án staðsetningar eru inni í myndinni, í gegnum fjarvinnslumöguleika er nú hægt að vinna ýmsa hluti tiltölulega óháð staðsetningu. Við ættum að geta með nútímatækni — ég tala nú ekki um ef nettengingar kæmust í almennilegt ástand í öllu landinu — unnið miklu meira af slíkum verkefnum vítt og breitt.

Hv. þingmaður segir að menn eigi ekki að horfa á þetta sem byggðasjónarmið eða byggðaaðgerð heldur fyrst og fremst út frá eðli starfseminnar. Já, en hinn þátturinn verður aldrei einangraður alveg frá því, það er bara þannig. Það hefur heilmikil byggðaáhrif í einu landi hvar opinber þjónusta er staðsett og veitt og hvar fólk vinnur og býr, borgar sitt útsvar o.s.frv.

Ísland hefur búið við einhverja mestu samþjöppun í byggðamálum í hinum vestræna heimi, þannig er komið að rúmir 2/3 hlutar þjóðarinnar búa hér á einum bletti landsins. Engin þjóð í Evrópu, ekki einu sinni þær sem hafa gengið í gegnum styrjaldir, hefur lent í jafnmiklu. (Forseti hringir.) Þess vegna eru það brýn sjónarmið að horfa til þess að byggðaröskunin aukist að minnsta kosti ekki í gegnum það að opinber þjónusta sé endalaust sentralíseruð hér.