144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá er nú betra að varðskipin fari að borga fyrir bryggjukantinn því að til þessa hefur það heldur verið kvöð á þeim sveitarfélögum sem hafa hýst flota hans hátignar að hafa þau við bryggjukantinn því að þau hafa ekki greitt gjöld eins og aðrir sem við hann liggja. Það er kannski ekki eftir mjög miklu að slægjast í því.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann fór ágætlega yfir að það er gott að búa á Akureyri, eins og við öll vitum, hvernig hann meti þau áhrif sem þetta hefur haft á umræðuna um bæinn. Ég heyrði þingmanninn nefna að þetta hefði lagst illa í Akureyringa. Hvernig fannst honum þetta leika orðspor eða umræðu um Akureyri og ekki síst sú hugmynd sem kom eftir á í vandræðunum að borga mönnum einhverjar milljónir króna fyrir að fara með stofnuninni?

Síðan vildi ég spyrja hvort aukinn verkefnatilflutningur heim í byggðirnar sé ekki líklegastur og raunhæfastur til þess að fjölga opinberum störfum í heimabyggð, fyrir utan störf án staðsetningar, sem við höfum verið miklir aðdáendur að í Samfylkingunni, (Gripið fram í.)að færa einfaldlega verkefnin sem í landshlutanum eru þangað í enn ríkari mæli og miklu ríkari mæli en við höfum gert og þar með störfin og umsýsluna. Er það ekki praktískt talað besta leiðin til þess að dreifa hinum opinberu störfum jafnt þannig að verkefnin séu sem allra mest úti í landshlutunum?