144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Aðeins um það sem gerðist árið nítján hundruð og eitthvað, flutninginn á Skógræktinni, þá var líka athyglisvert í því sambandi hversu oft bæði beint og óbeint síðan hefur verið reynt að flytja þá stofnun hingað aftur. Ég velti fyrir mér hvort við þurfum ekki á þessari öld að einbeita okkur meira í þessu samhengi að störfum án staðsetningar, sem þingmaðurinn hefur talað um. Getum með einhverjum hætti tryggt rétt fólks sem umsækjenda um störf í ríkari mæli en við gerum í dag til jafnstöðu við aðra umsækjendur þó að fólk búi annars staðar og vilji stunda starfið annars staðar frá en hin eiginlega skrifstofa er?

Að síðustu: Eru ekki oft og einatt þungar röksemdir fyrir því að hafa höfuðstöðvar opinberra stofnana og sérstaklega lykilstofnana á höfuðborgarsvæðinu vegna nándar við Stjórnarráðið? Þingmaðurinn nefndi nýlegt dæmi frá því að hann var sjálfur ráðherra og endurskipulagði ríkisskattstjóra um land allt og gerði að einni stofnun og jók fjarvinnsluna úti á landi og fjölgaði störfum þar, sem var mikilvægt, en tók eigi að síður þá ákvörðun að höfuðstöðvarnar væru á höfuðborgarsvæðinu. Ég gef mér þá að rökin á bak við það hafi verið að héðan væru flestir að sækja þjónustuna og hér væri nándin mest við fjármálaráðuneytið, fjármálakerfið og aðra aðila sem þessi lykilstofnun í samfélaginu þarf að eiga í samskiptum við.