144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum hér í 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum, skipulag ráðuneyta, stofnana o.fl.

Ég vil byrja mál mitt á byrjuninni, þ.e. á 1. gr. frumvarpsins, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Þetta ákvæði hefur stundum verið kallað fiskistofuákvæðið og hefur kannski eðli máls samkvæmt verið það sem einna mest hefur verið rætt í tengslum við þetta frumvarp í dag. Mér þótti það raunar áhugavert sem kom fram í máli hv. þm. Helga Hjörvar fyrr í umræðunni þar sem hann sagði að hann teldi óskynsamlegt að málið hefði verið afgreitt út úr nefnd til 2. umr., að málið sé afsprengi fiskistofumálsins og umsagnir um málið litaðar af því. Að hans mati, en hv. þm. Helgi Hjörvars er nefndarmaður í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefur haft þetta frumvarp til umfjöllunar, hefði málið betur fengið að liggja í nefndinni. Það fékk hins vegar ekki að liggja og ef frumvarpið sem hér er til umræðu verður samþykkt þá verður það þannig að ráðherra ræður staðsetningu stofnana sem undir hann heyra nema lög tiltaki eitthvað annað. Þetta tel ég alls ekki vera heillaspor og vil taka undir það sem segir í nefndaráliti minni hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég vil því lesa upp úr því nefndaráliti, með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hlutinn telur að við endurskoðun eldri laga um Stjórnarráð Íslands og setningu gildandi laga hafi í reynd verið tekin ákvörðun um að fella brott ákvæði um almenna heimild ráðherra til að kveða á um aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Fyrir liggur að aðsetur skiptir miklu máli þegar stofnun hefur fest rætur á ákveðnu svæði, hvort sem litið er til starfsemi eða starfsmanna. Þá hefur þetta áhrif á samkeppnishæfni stofnunar um starfsfólk. Annað gildir þegar komið er á fót nýrri stofnun sem ekki er byggð á sameiningu stofnana eða eldri stofnunum þótt ætíð þurfi að sjálfsögðu að byggja á skýrum málefnalegum rökum.

Minni hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram koma í umsögnum um að ákvörðun sem ráðherra kynnti um flutning Fiskistofu sýni fram á mikilvægi þess að aðsetur stofnana eigi að vera ákveðið með lögum. Fyrir liggur að mikil þekking hefur þegar glatast þar sem margir starfsmenn hafa hætt. Þá getur óvissa um staðsetningu stofnunar einnig haft áhrif á möguleika til að ráða hæfa starfsmenn. Minni hlutinn telur að heimild til handa ráðherra til að flytja stofnanir að eigin geðþótta án málefnalegs rökstuðnings, fjárhagslegrar og faglegrar úttektar sé óeðlilegt framsal á valdi löggjafans. Heimildin er til þess fallin að styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafarvaldsins og telur minni hlutinn varhugavert að stuðla að slíkri þróun þegar reynslan sýnir að ætíð sé nauðsynlegt að takmarka vald framkvæmdarvaldsins. Jafnframt tekur minni hlutinn undir sjónarmið um að þörf sé á mun ríkari umræðu um tilgang og markmið slíkrar lagabreytingar en frumvarpið felur í sér. Minni hlutinn tekur fram að þótt vald til flutnings á stofnunum hins opinbera sé háð samþykki löggjafans eigi slíkur flutningur að sjálfsögðu að vera gerlegur. Aðkoma löggjafarvaldsins dregur hins vegar úr hættu á duttlungastjórnun og er líklegri til að stuðla að faglegum, ábyrgum og sanngjörnum vinnubrögðum.“

Undir þetta tek ég heils hugar og tel að þetta fari raunar langleiðina með að segja það sem segja þarf um 1. gr. frumvarpsins. Það er hins vegar fleira en bara flutningurinn á Fiskistofu sem þó hefur mest verið rætt um sem hangir hér á spýtunni.

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, markmið, stjórnsýsla og almenn ákvæði, sem hefur farið í gegnum 1. umr. hér í þinginu og er nú til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd, segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra ákveður staðsetningu Tryggingastofnunar og hvar þjónustustöðvar hennar skuli vera, að fenginni umsögn forstjóra. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að sameina þjónustustöðvar Tryggingastofnunar og þjónustustöðvar annarra opinberra stofnana.“

Þetta ákvæði í tengslum við samhengi við frumvarpið sem við ræðum hér og nú veldur mér satt að segja áhyggjum því í þessu frumvarpi um almannatryggingalög er einmitt verið að leggja til að ekki verði hægt að kveða á um staðsetningu Tryggingastofnunar í lögum heldur færa það undir ráðherrann. Nú er auðvitað alls ekki sjálfgefið að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafi í hyggju að færa stofnunina og það er meira að segja kannski frekar ólíklegt. Ef þetta lagaákvæði yrði samþykkt og þetta frumvarp hér mundi það hins vegar gera ráðherra mögulegt að sameina þjónustustöðvar Tryggingastofnunar og þjónustustöðvar annarra opinberra stofnana. Af þessu hef ég áhyggjur enda mikilvægt að stofnun eins og Tryggingastofnun sem og þjónustustöðvar hennar séu staðsettar miðsvæðis og vel tengdar til að mynda almenningssamgöngum, enda er sá hópur sem þangað á kannski helst erindi ólíklegri en margir aðrir til að eiga einkabíl. Þess vegna skiptir staðsetning stofnunar máli, ekki bara að hún sé á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir viðskiptavinir stofnunarinnar eru, heldur skiptir líka máli að aðgengi þangað sé greitt.

Mig langar að nefna til samanburðar staðsetningu á annarri stofnun sem er Sjúkratryggingar Íslands við Vínlandsleið. Það er dæmi um opinbera stofnun sem að mínu mati er alveg óskaplega illa staðsett þótt hún sé vissulega á höfuðborgarsvæðinu og mér hugnast ekki að sjá lög sem í rauninni gera það enn auðveldara að færa stofnanir á óhagstæða staði fyrir notendur eða viðskiptavini hennar alveg án umræðu eða aðkomu Alþingis.

Þá hef ég áhyggjur af því að þegar svona fer saman í lögum að ráðherra ráði staðsetningu stofnana, nema á annan veg sé mælt fyrir í lögum og þegar tekið er úr lögum ákvæði um staðsetningu stofnunarinnar, þá aukist líkurnar á því að illa ígrundaðar ákvarðanir eða geðþóttaákvarðanir um staðsetningu séu teknar og að aukin hætta sé á því sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir, hv. varaþingmaður okkar Vinstri grænna orðaði svo snyrtilega sem kjördæmavelvildarpólitík í 1. umr. um þetta lagafrumvarp og er auðvitað þekktara sem kjördæmapot á kjarngóðri íslensku.

Mér finnst ekki skrýtið að kannski lunginn af umræðunum hér í dag hafi farið í 1. gr. því það er ærið tilefni til. En mig langar líka að gera 8. gr. frumvarpsins að umtalsefni en í henni segir, með leyfi forseta:

„25. gr. laganna orðast svo:

Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.

Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal ráðuneytið hafa reglulegt samráð við þau embætti.“

Ég hef áhyggjur af þessu ákvæði og tel það ekki til bóta því með þessu frumvarpi ætlar hæstv. ráðherra að leggja niður nefnd um siðferðisleg viðmið fyrir stjórnsýsluna sem hefur starfað og taka verkefni hennar að sér sjálfur eða hans ráðuneyti. Ég tel að þar með sé hætt við því að forsætisráðuneytið sem er hluti af stjórnvöldum standi þeim sömu stjórnvöldum eðli málsins of nærri. Ég tel því að þessi ráðstöfun sé hreinlega líkleg til að draga úr trausti á stjórnvöldum því þau fái sjálf og þá fyrst og fremst forsætisráðuneytið í rauninni allt of mikið vald til að túlka siðareglur og þá mögulega sér í hag og ég tel að það sé alls ekki það sem íslensk stjórnvöld þurfi á að halda akkúrat núna þegar traustið á bæði Alþingi sem og ríkisstjórn er óskaplega lítið. Ég vil því taka undir með minni hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur ríkar efasemdir um að samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna verði lögð niður.

Í þriðja lagi langar mig að tala um b-lið 10. gr. í frumvarpinu, en í 10. gr. er fjallað um breytingar á öðrum lögum sem gildistaka þessara laga, ef þau verða samþykkt, kallar á. B-liður 10. gr. fjallar um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Í þessari frumvarpsgrein segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er, án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður sem er ráðinn ótímabundið til starfa flytjist um afmarkaðan tíma eða varanlega milli stjórnvalda enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs.“

Í nefndaráliti minni hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er fjallað um þetta ákvæði þar sem talað er um að rýmkun heimilda til flutnings starfsmanna sé til þess fallin að minnka gagnsæi við slíka ákvarðanatöku og minni hlutinn bendir á að gagnsæi sé grundvöllur þess að almenningur geti veitt stjórnvöldum fullnægjandi aðhald.

Ég velti því líka upp hvaða áhrif þetta hafi á stöðu kvenna sem vinna eða starfa á vegum ríkisins. Það hefur oft verið talað um að aukið gagnsæi hjálpi einmitt konum til að fá jafnan sess á við karla á vinnumarkaði en þetta gæti verið til þess að fara akkúrat í hina áttina. Ég spurði áðan í andsvari hv. þm. Helga Hjörvar sem á sæti í nefndinni út í þetta atriði og hann svaraði því til að þetta hefði lítillega verið reifað á fundum nefndarinnar. Ég tel það algerlega þess virði, verði málið tekið til nefndar milli 2. og 3. umr., að þessu verði gefinn gaumur. Mér finnst það alla vega skoðunarinnar virði að rýna þetta lagafrumvarp og þá kannski sérstaklega þetta ákvæði með kynjagleraugum. Ég vil beina því til hv. þingmanna sem sitja í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gera það.

Að lokum vil ég úr því að ég hef smátíma eftir gera að umtalsefni 4. gr. frumvarpsins en hún fjallar um skráningu upplýsinga. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að fyrir nefndinni hafi komið fram að það væri nokkurt misræmi í framkvæmd á skráningu upplýsinga hjá ráðuneytum og þetta þyrfti að samræma. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu og hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“

Ég tel þessa breytingartillögu vissulega vera til bóta og get svo sem fallist á hana eina og sér, en í heildina litið þá breytir hún þó ekki þeirri meginskoðun minni að hér sé á ferðinni mál sem Alþingi eigi alls ekki að samþykkja vegna þess að það mundi hreinlega leiða til þess að lög um Stjórnarráð Íslands yrðu mun verri en þau nú eru.