144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er einmitt eitt af því sem ég hef verið að velta fyrir mér. Það segir mjög skýrt í 1. gr. frumvarpsins að ráðherra kveði á um aðsetur stofnunar, sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum. Þá hljótum við að þurfa að reiða okkur á að það standi nú þegar í lögunum hvar stofnunin eigi að vera.

Nú er það svo, í dæminu sem ég tók um Tryggingastofnun, að þá er hreinlega verið að taka ákvæðið úr lögunum og flytja það til ráðherra. Mér finnst því þessi vísun hv. þm. Karls Garðarssonar, um að þingið geti ákveðið þetta með lögum, virka ansi flókin fjallabaksleið þegar það stendur svona skýrt hér í tillögu til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands að ráðherra kveði á um þetta.