144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það geislar af orðum allra þingmanna sem hér hafa tekið til máls að það er fullur vilji hjá þeim að reyna að rétta hlut landsbyggðarinnar með því að staðsetja fleiri störf á vegum ríkisins þar. Fiskistofuákvæðið, sem er umdeildasta ákvæðið í þessu frumvarpi sem við erum að ræða, er í reynd ekkert annað en mjög eindregin og full einörð viðleitni til þess. Það auðvitað lyktar af gömlu testósteróni eins og margt sem þessi ríkisstjórn er að gera, eins og t.d. breytingartillagan um ramma þar sem menn vilja láta kné fylgja kviði og sýna hver hefur valdið.

Það er hins vegar þannig af reynslu minni að það er mjög erfitt að flytja störf út á land. Má ég þá rifja upp mína reynslu. Ég skrifaði á sínum tíma og fékk hér samþykkta tillögu um störf án staðsetningar. Hún gekk svolítið vel í byrjun. Ég reyndi síðan að nýta hana til þess að flytja störf út á land sem utanríkisráðherra. Þá kom í ljós að fólk á höfuðborgarsvæðinu vildi notfæra sér þessi störf, en ég sagði nei, þetta er til þess að fjölga störfum á landsbyggðinni. Umboðsmaður Alþingis tók afstöðu gegn mér. Svo einfalt var það. Með öðrum orðum, spurningin um jafnræði kemur í veg fyrir að við getum notað það eins og við ætluðumst til þegar við samþykktum það hér. Flókið mál.

Ég tók líka þátt í því að reyna að flytja stofnanir út á land, það gekk mjög illa. Á þeim tíma lærðum menn lexíuna og ákváðu að fara ekki þá leið sem hér er farin. Á þeim tíma var tekin upp sú stefna að búa til útibú úti á landi, m.a. Fiskistofu, og í gegnum það hefur tekist að fjölga störfum töluvert úti á landi. Auðvitað er líka hægt að nota störf án staðsetningar, en ekki eins og við töldum í upphafi að væri hægt.

En mig langar til þess að spyrja hv. þingmann, þegar hún skoðar útibúavæðingu ríkisstofnana: Er það ekki ágæt leið, þótt hún sé hægvirkari, til þess að fjölga störfum sem ríkið hefur með höndum úti á landsbyggðinni?