144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stutta svarið er jú. Ég held að það sé mjög góð leið að fjölga útibúum ríkisstofnana úti á landi, þótt hún kunni vissulega að vera hægvirk og gangi kannski ekki sem eina byggðaaðgerðin sem við ætlum að ráðast í. En kostirnir við að fjölga útibúum er tvíþættir, það er annars vegar atvinnuskapandi og skapar þeim sem þar vinna störf og hins vegar eykur það þjónustuna og styttir leiðina til að sækja þjónustuna fyrir þá sem búa á svæðinu, þannig að við græðum tvennt með því. Ég tel að þetta sé mjög jákvæð og góð leið sem við eigum að fara í í bland við fleira, eins og það sem við vorum að ræða í gær, frumvarp sem sneri m.a. að strandveiðum, það er ýmislegt fleira sem er hægt að gera til að styrkja byggð í landinu. Ég held hins vegar að það að ætla að flytja eina stóra stofnun með manni og mús sé eitthvað sem allir sjá ef þeir rýna í það að gengur ekkert upp, því að auðvitað þarf líka að hugsa um þá sem starfa nú þegar í stofnuninni og fjölskyldur þeirra og hagi þeirra. Þetta er allt of, ef ég leyfi mér að sletta, grótesk aðgerð að fara í til þess að það geti einhvern tímann náðst sátt um hana.