144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég tel að þetta muni hvorki leiða til festu né sátta og samlyndis. Við getum bara rétt ímyndað okkur hvað gerðist ef þetta frumvarp yrði samþykkt og ráðherra tæki sig til og kvæði á um að flytja aðsetur stofnunar og við hér á Alþingi hefðum ekkert um þá ákvörðun að segja vegna þess að það væri orðið ráðherrans að ákveða það en ekki Alþingis. Það mundi aldeilis ekki auka hér á sátt og samlyndi.

Það sem ég ætlaði að segja varðandi ráðherraræðið í fyrra svari og ég gleymdi var að það er einmitt ekki bara verið að kveða á um það í þessu frumvarpi að ráðherra eigi að ákveða hvar stofnun eigi að vera, heldur ætlar forsætisráðuneytið líka að taka að sér að gefa stjórnvöldum ráð um hvernig túlka eigi siðareglur. Þannig að manni finnst einhvern veginn að ráðuneytin verði hér orðin alltumlykjandi í öllu.