144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni þessar vangaveltur. Í greinargerð með frumvarpinu er vitnað til þess að allnokkur reynsla sé komin á starf þeirrar nefndar sem nú er lagt til að leggja niður. Ákvæði um hana voru lögfest árið 2010 og hér er því haldið fram að erindi sem hafi borist til þessarar nefndar — hlutverk hennar var líka að kynna siðareglur og setja siðareglur eða gera tillögur að siðareglum sem síðan voru staðfestar af ráðherra; en þarna er bent á að kynning hafi fyrst og fremst verið í höndum forsætisráðuneytisins og það sé eðlilegt að slíkar kynningar séu í höndum ráðuneyta. Fá erindi hafi borist nefndinni, þetta er ekki langur tími, þetta eru örfá ár sem um ræðir, og það er verið að innleiða nýja hugsun, nýjar reglur, og síðan segir að forsætisráðuneytið hafi tekið við slíkum erindum og afgreitt þau eftir að skipunartími nefndarinnar rann út.

Það sem ég hefði áhuga á að vita væri hvers eðlis þau erindi væru sem hafa borist nefndinni, væntanlega er hægt að leita að því í fundargerðum nefndarinnar, sem eru opnar, og átta mig á því hvort þarna sé ekki í raun dæmi um að slíkar nefndir þurfi tíma til að festa sig í sessi. Við skulum átta okkur á því að þarna er um örfá ár að ræða. Það er verið að kynna nýtt fyrirkomulag, að þessi nefnd sé starfandi, að þessar reglur séu í gildi, og ég lít svo á að þarna sé búið að kippa úr sambandi nefnd áður en almennileg reynsla er komin á starf hennar.

Hv. þingmaður spyr: Hverjar eru ástæðurnar? Ég átta mig ekki á því, því að mér finnst í greinargerðinni gert lítið úr þessu hlutverki; það er nú mikilvægt að sinna þessu hlutverki en vart verður talin þörf á lögbundinni nefnd til að sinna því.

Maður spyr sig þá: Af hverju telur hæstv. forsætisráðherra að verkefni stjórnsýslunnar séu svo léttvæg að ekki þurfi sérstaka nefnd, eða telur hann kannski enga (Forseti hringir.) þörf á siðanefndum í háskólum eða öðrum stofnunum ríkisins, svo að dæmi sé tekið, þar sem farið er með viðkvæm mál eins og í stjórnsýslunni?