144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrsta fundargerð samhæfingarnefndar um siðferðisleg viðmið er frá 1. nóvember 2010 og síðasta fundargerð hennar, frá því nefndin er í raun og veru sett af, skipunartími hennar rennur út, er 3. október 2013. Nefndin starfaði sem sagt í þrjú ár og forsætisráðuneytið metur það svo að reynslan af starfi hennar sé sú að þessu sé hægt að sinna sem aukaverkefni hjá einhverjum öðrum sem væntanlega er þó ekki siðfræðimenntaður, samkvæmt því sem lesa má úr greinargerðinni. Eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði á þetta væntanlega að vera eitthvert aukaverkefni hjá einhverjum sem hefur ekki sérþekkingu á sviðinu sem segir allt um virðingu hæstv. forsætisráðherra fyrir þessu fagi.

Ef fundargerðirnar eru skoðaðar, þó að á hlaupum sé, þá virðist nefndin hafa haft yfrið nóg að gera. Þar er verið að skoða siðareglur fyrir einstaka stofnanir og undir lokin, að mig minnir á næstsíðasta eða þriðja síðasta fundi nefndarinnar, er verið að ræða að það að gera þurfi könnun á því meðal starfsfólks Stjórnarráðsins hvort það telji að þessar reglur séu að virka, hvort það telji að eftirfylgni með þeim sé sem skyldi o.s.frv.

En síðan hefur málinu verið lokið. Væntanlega hefur verið spurt um þetta sem hv. þingmaður vitnar til, um almenna ánægju og þörf, í öðrum starfsmannakönnunum, þannig að maður áttar sig eiginlega ekki á því þegar röksemdafærslan leiðir í raun að því að þetta verkefni eigi að halda áfram, en síðan er tekin ákvörðun um eitthvað allt annað.

Af því hv. þingmaður spurði mig að því hér í fyrra andsvari hverjar gætu verið ástæðurnar fyrir þessu þá velti ég því fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra þyki bara óþægilegt að hafa nefnd utanaðkomandi aðila, óháðra sérfræðinga, sem annist þessi málefni; hvort honum finnist þægilegra að hafa þessi málefni bara inni í ráðuneytinu þannig að engir sjálfstæðir sérfræðingar séu til þess fengnir að skoða þessi mál.

Nú er verið að ræða hér að setja siðareglur fyrir Alþingi þar sem einmitt er ætlunin að hafa slíka óháða nefnd, en við sjáum að Stjórnarráðið er að færa sig í allt aðra og öfuga átt.