144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði Þróunarsamvinnustofnun einmitt í huga, sem dæmi um að menn vilji greinilega færa stofnanir undir ráðuneyti. Þetta væri hægt að gera í mörgum tilfellum; Barnaverndarstofu undir velferðarráðuneytið eða Jafnréttisstofu undir ráðuneytið. Er ávinningur af því? Eða munum við draga úr sjálfstæði stofnana, sem hér er líka nefnt, ef ég man rétt frá Félagi stjórnsýslufræðinga, þ.e. að forstöðumaður eigi að hafa frumkvæði og bera ábyrgð á sinni stofnun? Ein algengasta afsökunin, þegar menn voru að fylgjast með ýmsum ákvörðunum, til dæmis fyrir ráðuneytið, er sú að beðið sé eftir því að ráðherra taki ákvörðun um hitt og þetta. Það er hringt í heilbrigðisráðherra og spurt: Ætlarðu ekki að tryggja lækni á Vopnafirði um helgina? Stundum hef ég það á tilfinningunni að þegar við sameinuðum ráðuneyti og síðan voru þau sundurgreind aftur þá sé það einmitt til að hægt sé að vera með slíkar geðþóttaákvarðanir.

Ég hef oft hugsað til þess, þegar menn taka heilu löndin eins og Svíþjóð eða Noreg sem eru jafnvel með lítið fleiri ráðherra — jú, ég segi ekki þeir eru með 22 eða 23 í Svíþjóð, en það eru miklu fleiri íbúar á bak við hvern ráðherra og ekki ætlast til að ráðherrar séu að hlutast til um einstök mál. Þetta virðist vera að koma aftur í þessu frumvarpi, í sambandi við Þróunarsamvinnustofnun. Þetta kemur upp í menntamálum þar sem verið er að færa ákvarðanir um ýmis mál til hæstv. menntamálaráðherra. Ég tel þetta vera mikla afturför.

Hv. þingmaður talaði um að hugsanlegt væri að gera þetta með öðrum hætti, varðandi flutning stofnana, og talaði um að setja þyrfti reglur um hvernig slíkt yrði gert. Telur hv. þingmaður ekki að þær reglur sem fjármálaráðuneytið setti — einmitt í framhaldi af umræðunni 2011, þar sem sagt var að það þyrfti að skilgreina nákvæmlega hver þörf stofnunarinnar verði, hver kostnaðurinn verður, gera framkvæmdaáætlun o.s.frv. áður en ráðist yrði í slíkar framkvæmdir — séu fullnægjandi, að það þurfi í sjálfu sér ekkert annað en bara nota það sem er í kerfinu í dag, sem er sniðgengið og enginn virðist vita um þegar menn eru að taka slíkar ákvarðanir; sem er sú formfesta sem vantar í ráðuneytið og það sem kallað var hér áður minnisleysi hvað varðar stofnanaminni?