144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að nefna að í greinargerðinni kemur fram, í athugasemdum um 6. gr., að stofnanir sem hafa verið settar á laggirnar með sérlögum — að það þurfi að breyta þeim lögum verði tekin ákvörðun eða lagt til að sameina slíkar stofnanir undir ráðuneyti. Hér sé því fyrst og fremst um heimildarákvæði að ræða sem síðan þurfi sérstaka lagabreytingu til þess að nýta. En ég hegg líka eftir því, út frá því sem hv. þingmaður nefndi, að í greinargerðinni er fjallað um það að þarna sé verið að taka ákvarðanir sem séu óháðar valdi ráðherra en um leið svari hæstv. ráðherrar ekki fyrir ákvarðanir sjálfstæðra úrskurðarnefnda eða annarra slíkra stofnana.

Í greinargerðinni er sagt, með leyfi forseta:

„Er ástæða til að mótuð verði löggjafarviðmið um það í hvaða tilvikum slíkar sjálfstæðar stjórnsýslunefndir eigi rétt á sér og er nefnd að störfum innan Stjórnarráðsins sem hefur það verkefni meðal annars.“

Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri ástæða til að bíða eftir því að slík viðmið lægju fyrir þannig að hægt væri að orða þessa 6. gr. skýrar því að eins og hún er orðuð núna þá er hún allopin.

Ég get tekið undir það að það er jákvætt að slík vinna eigi sér stað, þ.e. hvað eigi heim inni í ráðuneyti og hvað ekki. Ég get nefnt sem dæmi stjórnsýslustofnanir sem eiga heima undir menntamálaráðuneyti af því að þar þekki ég ágætlega til, annars vegar Minjastofnun og hins vegar fjölmiðlanefnd. Hvor þessara stofnana ætti betur heima í ráðuneyti? Ég get til dæmis sagt það um fjölmiðlanefnd að mér fyndist mjög mikilvægt að hún væri sjálfstæð stofnun og gæti talað með sjálfstæðum hætti og væri ekki hluti af hinu pólitíska valdi. Það er kannski frekar spurning um Minjastofnun. Ég varpa þessu bara svona fram án þess að hafa mótað mér skoðun á því.

Væri ekki rétt að slík stefna lægi fyrir áður en hér verður samþykkt heimild, þar sem þetta er allt orðið mjög opið, herra forseti?