144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Norður eða suður, það má einu gilda, Reykjavík á auðvitað að vera eitt kjördæmi. Ekki hefur farið mikið fyrir umræðu um fundarstjórn forseta í dag, enda af nægu að taka í efnisumræðu um þetta dagskrármál hér, stjórnarráðsmálið.

Ég verð þó að lýsa yfir undrun minni á áherslum stjórnarflokkanna. Þegar starfsáætlun þingsins er liðin og þingið á að vera farið heim og hér gefast nokkrir dagar til viðbótarfundarhalda þá telja menn brýnast að ræða fiskistofumálið þennan dag og trúlega þann næsta og hver veit hversu lengi.

Á meðan á dagskrá ættu að vera svo miklu brýnni mál — gjaldeyrishöftin sem stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um og fæst ekki afgreitt úr ríkisstjórn, húsnæðismálin frá hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttur sem sitja enn þá föst uppi í fjármálaráðuneyti o.s.frv. — þá eru menn að eyða tíma í þessu vitleysu. Það er illa farið með góðan tíma.