144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég óska eftir því að okkur verði tilkynnt hvernig eigi að hátta þessu. Það er leyfilegt að hafa hér þingfund til 12, en þurfum við að vera hér áfram? Ef svo er þá finnst mér óeðlilegt að hæstv. forsætisráðherra sé ekki hér. Hann var nú hér í hliðarherbergi — maður sá hann eitthvað laumast, hann kom ekki inn í þingsal hér þegar mælt var fyrir nefndarálitinu í málinu í gærkvöldi.

Mér þætti ekkert óeðlilegt, í ljósi þess að hann ætlar að verða sérstakur siðameistari ríkisins, að hann kæmi hér og væri tilbúinn að ræða það hlutverk sem hann ætlar að taka inn í sitt ráðuneyti og undir sinn væng. Í ljósi stöðu ráðherra í hans ríkisstjórn er full ástæða til; það hafa verið ýmis tilefni þannig að ástæða er til að við fáum að ræða þetta á dýptina við hæstv. forsætisráðherra fyrst þetta mál er hér á dagskrá.