144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það kemur fram í þessu frumvarpi að verið sé að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að skipuleggja störf sín. Í því skyni er lagt til að heimildir ráðherra til að skipuleggja ráðuneyti verði auknar þannig að til viðbótar uppskiptingu á aðalskrifstofu í fagskrifstofur verði heimilt að setja á fót starfseiningar og ráðuneyti stofnana innan ráðuneytis. Í því skyni er lagt til að bætt verði ákvæði við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem heimili flutning starfsfólks á milli stjórnvalda án þess að störfin séu auglýst til umsóknar.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess að óskað sé eftir heimild til að auglýsa ekki þau störf sem þarna eru á ferðinni.