144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því að þetta á ekki að vera í höndum einstaka forstöðumanna. Hins vegar held ég að það sé nú samt reyndin í lífinu að það fer oft eftir því hvernig sá eða sú sem stjórnar hugsar, hvernig það fólk er innréttað, hvernig framþróun verður. Það sem ég átti kannski við líka er að ég held að eðli stofnana sé ólíkt og misjafnt hvort það sé yfirleitt hægt að dreifa störfum þeirra um landið. Ég var nú sjálf hjá Landspítalanum og var ekki á höfuðskrifstofu heldur í úthýsi. Það var mjög skrýtið hvernig maður slitnaði úr sambandi við það sem var í raun að gerast með því að vera ekki þar sem allir voru. Þótt við séum jákvæð og viljum flytja opinbera þjónustu út á land þá þurfum við líka að hugsa um hið stóra samhengi og að kerfið (Forseti hringir.) virki allt eins og það á best að gera.