144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ágæta ræðu og spyrja hana um það sem lýtur að samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið, vissulega ekki mjög þjált nafn, eins og hv. þingmaður kom inn á. Hér kemur fram í áliti meiri hluta nefndarinnar að þótt ekki sé lengur talin þörf á sérstakri eða lögbundinni nefnd sé þó mjög mikilvægt að því hlutverki sé áfram sinnt, m.a. til að tryggja að siðareglur þróist áfram eins og eðlilegt er. Þannig að meiri hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé mjög eðlilegt að leggja þessa nefnd af en þó sé mjög mikilvægt að hlutverki hennar verði áfram sinnt, þetta eigi að vera virkur þáttur og ég veit ekki hvað, en samt á enginn að sinna þessu samkvæmt frumvarpinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún sér þetta fyrir sér, hvort hún telji ráðuneytið vera endilega rétta aðilann til að fara með þetta hlutverk því þetta snýst (Forseti hringir.) auðvitað um að geta veitt leiðbeiningar og ráðgjöf sem byggist á ákveðinni sérþekkingu.