144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:56]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Mér líður hér í ræðustól eins og lélegum sveitapresti sem er búinn að flæma frá sér allan söfnuðinn. Hér eru einungis tveir í söfnuðinum að hlusta.

Það mál sem er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands frá 2011, er býsna merkilegt mál og er mér á margan hátt hugleikið. Ég hef á stundum sagt það að stjórnarráðslögin frá 1970 voru sem næst fullkomin í mínum huga, nema kannski að því leyti að í þeim lögum var gert ráð fyrir því að vátryggingasamningar heyrðu undir heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið þar sem ekki var gerður greinarmunur á almannatryggingum og vátryggingum, sem síðar voru fluttar undir viðskiptaráðuneytið. Sömuleiðis var það þannig að árið 1970 voru umhverfismál ekki til, reyndar var orðið mengun ekki til í orðabók Menningarsjóðs frá 1963, þannig að allir hlutir taka einhverjum breytingum og meira að segja lög sem voru sem næst alfullkomin þarfnast breytinga.

Fram til 1970 hafði gengið á ýmsu í stjórnsýslu Stjórnarráðs Íslands. Þá voru ráðuneyti jafnvel stofnuð á þann hátt að það voru prentuð bréfsefni og þá varð til ráðuneyti. Þannig varð iðnaðarráðuneytið til að bætt var við í bréfsefni samgönguráðuneytisins heiti iðnaðarráðuneytisins, þannig að það varð samgöngu- og iðnaðarráðuneyti. Sömuleiðis varð til efnahagsráðuneyti fyrir þrjá starfsmenn án þess að lagastoð væri til. En síðan varð efnahagsráðuneytið að efnahagsstofnun með lagastoð, ef minni mitt brestur ekki.

Þá má einnig minna á að hér á landi var starfræktur háskóli í þrjú ár, frá árinu 1938–1941, án þess að til væri löggjöf um þann skóla eða reglugerð, heldur var sá skóli á einhvers konar fjárveitingum frá kennslumálaráðherra á þeim tíma. Sem betur fer var slíkt lagfært með stjórnarráðslögunum 1970. Þarna var starfsemi Stjórnarráðsins færð í nokkra festu og eitt meginatriðið var að einn ráðuneytisstjóri heyrði undir einn ráðherra, hins vegar gat einn ráðherra haft undir sér mörg ráðuneyti. Þetta varð til festu. Það má kannski segja að lögin frá 2011 sem eru til umræðu hafi verið upphaf ákveðinnar ógæfu, upphaf þess að hér fer allt af stað. Nú getur einn ráðuneytisstjóri haft yfir sér tvo ráðherra, eins og er í nokkrum tilfellum.

Eitt vildi ég nefna líka í undarlegheitum fyrri ára að á árunum 1944–1947 var samgönguráðuneyti, en málefni flugmála heyrði ekki undir samgönguráðherra heldur undir menntamálaráðherra. Allt var þetta hið allra skrýtnasta.

Þetta vil ég sagt hafa í byrjun. Ég hefði kannski frekar átt að flytja þessa ræðu í 1. umr., en þetta frumvarp sem hér kemur fram virðist vera til stuðning ákvörðun um að flytja Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Ég tel að framsetning þess máls á sínum tíma hafi verið á flestan hátt mjög ámælisverð. Það hefur verið sagt í umræðunni að stjórnarstofnanir séu ekki til fyrir starfsmenn heldur fyrir þegnanna, en það er einu sinni þannig að starfsmenn stjórnarstofnana og fyrirtækja sem vinna störf sín af kostgæfni eiga skilið virðingu og störf allflestra sem störf sín vinna af kostgæfni eru sjálfsvirðing þeirra. Þessi framsetning var bein árás á sjálfsvirðingu starfsmanna. Mér kom í huga orð sem voru höfð um Sölku Völku. Með leyfi forseta ætla ég að vitna til þeirra orða. Þau eru ekki mörg: „Henni varð alltaf jafn mikið um í hvert skipti sem líf hennar var eyðilagt.“

Mér fannst nánast að verið væri að eyðileggja Fiskistofu með því að rífa stofnunina upp með rótum, starfsfólkið skipti ekki máli. Stofnun eins og Fiskistofa er fyrst og fremst starfsfólk. Þarna er töluverður mannauður saman kominn og töluverð reynsla. Þessi framsetning á málinu var að mínu viti eins og ekki á að gera breytingar.

Ég geng meira að segja svo langt að segja að sú hótun sem þarna var sett fram í garð starfsmanna um starfamissi sé með því alvarlegra sem nokkur starfsmaður eða nokkur maður getur fengið, sem nokkur manneskja getur fengið yfir sig. Mér verður hugsað til kenninga svissnesks sálfræðings, Elisabethar Kübler-Ross, sem setti fram kenningu sína um dauðaferlið í bók sinni sem heitir á ensku On Death and Dying, þarna upplifði starfsfólk upplausn og örvæntingu og rótleysi og þetta var alger óþarfi.

Ég ætla líka að nefna það að menn hugsa gjarnan um stjórnsýslustofnanir sem atvinnubótavinnu, finnst mér, það sé bara hægt að taka þær upp til þess að bæta atvinnuástand einhvers staðar.

Í því sambandi vil ég geta þess að í Hafnarfirði hefur ýmislegt gerst á undanförnum árum. Þar var til dæmis sjúkrahúsi lokað, þar er ekki starfrækt embætti sýslumanns lengur heldur er starfrækt skrifstofa frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Það má því segja að ef það er byggðavandi einhvers staðar úti á landi er líka viss byggðavandi í Hafnarfirði, því má ekki gleyma. En varðandi Fiskistofu geta menn deilt um gagnsemi og nauðsyn hennar, en á meðan við sitjum hér með kvótakerfi og lög um stjórn fiskveiða virðist mér að Fiskistofa sé nauðsyn. Hún tók að vissu leyti við verkefnum Fiskifélags Íslands og sumu leyti fékk hún ný verkefni með lögum um stjórn fiskveiða. Allt þetta gat leitt til þess að stofnunin veiktist.

Nú veit ég ekki hvort búið er að slá þessum flutningi á frest eða hvort búið er að fella hann niður, ég átta mig ekki á því. Ég tel að orð mín í þessari ræðu eigi jafn mikið erindi eftir sem áður.

Ég tel að festa í stjórnsýslu sé það sem máli skiptir. Það er kosið til Alþingis með reglulegu millibili, eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Það er skipt um ríkisstjórnir, en það þarf festu í stjórnsýslu til þess að samfélagið gangi. Festu í stjórnsýslu, segi ég, en á móti má kannski segja að það þurfi líka vissan sveigjanleika og hreyfanleika. Það kann að vera að verkefni breytist og verkefni þurfi að færast til. Ég sé ekki að það sé skaðlegt, hvorki fyrir starfsmenn né stofnanir, að hægt sé að færa starfsmenn til innan þeirra marka sem lög um réttindi og skyldur starfsmanna heimila, hins vegar átta ég mig ekki almennilega á fyrirbrigði sem verður til í 6. gr. frumvarpsins. Með leyfi forseta segir í 6. gr., og ég ætla að fá að lesa hana alla:

„Ráðherra skal skipuleggja aðalskrifstofu ráðuneytis með því að skipta henni upp í fagskrifstofur og skal hverri skrifstofu stýrt af skrifstofustjóra undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.“

Gott og vel. Hér er um að ræða skiptingu ráðuneytis, deildaskiptingu, fagskiptingu ráðuneytis sem við þekkjum. Síðan kemur:

„Jafnframt er heimilt að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem eru starfræktar sem hluti af ráðuneyti.“

Þarna er þetta hvorki stofnun né ráðuneyti, þetta er hvorki/né stofnun. Ég fæ ekki séð af greinargerðinni að þetta sé útskýrt mjög skýrt, eins og ég hefði viljað. Það var á árum áður fjármálaráðuneyti sem var eins og guð almáttugur í senn eitt og þríeitt, þ.e. fjármálaráðuneytið var ráðuneytið sjálft, Fjárlaga- og hagsýslustofnun og Ríkisendurskoðun. Svo gerðist það að Ríkisendurskoðun var af eðlilegum ástæðum flutt frá ráðuneytinu undir yfirstjórn Alþingis, en Fjárlaga- og hagsýslustofnun varð ósköp einfaldlega ein af skrifstofum ráðuneytisins. Þessi þáttur finnst mér því ekki gefa þá festu sem ég hefði viljað hafa í stjórnsýslunni.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um siðanefndir og þörf á þeim. Ég hef stundum sagt að það sé fyrst þörf á siðanefnd þegar slysin hafa orðið, en það eru til stjórnsýslulög og það er til stjórnarskrá og það eru til þykkir lagabálkar sem hafa lagagildi, siðareglur hafa ekki lagareglur heldur eru til viðmiðunar. Ég hef gjarnan sagt að siðareglur, hvernig svo sem þær eru færðar í letur, verði aldrei annað en heilbrigð skynsemi. Það er verst að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli ekki vera hérna (Gripið fram í: … og heilbrigða skynsemi.) af því að heilbrigða skynsemin mótast oft og tíðum af því sem segir einhvers staðar í Biblíunni í hinni gullnu reglu, „allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“, og hefði verið gott að hafa þann biblíufróða mann við hendina ef minni mitt hefði brostið.

Ég sé ekki að þetta frumvarp hefði nokkurn tímann komið fram nema vegna þess að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór að hugsa upphátt, þ.e. hann hugsaði um að flytja Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Það er stundum erfitt að hugsa upphátt, kannski er betra að hugsa í hljóði. Síðan í kjölfar þess fylgdi það að einhver landshlutanefnd Norðurlands, sem ég hafði aldrei heyrt talað um, taldi eðlilegt að flytja a.m.k. tvær stofnanir í Skagafjörð, þ.e. Landhelgisgæsluna og Rarik, án þess að ég hefði nokkurn tímann séð að það væri gerður samanburður á öðrum kostum í þeim efnum.

Ég hef þjónað landsbyggðinni þó nokkuð á minni ævi og tel mig á marga hátt landsbyggðarmann og tel að opinber störf séu ekki það sem skipti sköpum fyrir landsbyggðina heldur annað atvinnulíf. Ég held að menn ættu fyrst og fremst að huga að atvinnulífi úti á landi en ekki alltaf vera að hugsa um það hvort fara mætti í atvinnubótavinnu með einhverjum opinberum stofnunum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín lengri að sinni, virðulegi forseti. Ég lýk hér máli mínu. Takk fyrir.