144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:18]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir mjög góða ræðu. Hann rifjaði upp sögu stjórnsýslunnar og Stjórnarráðsins, stiklaði að sönnu mjög á stóru en þó nóg til þess að gefa okkur mynd af ákvörðunum sem teknar hafa verið í tímans rás án þess að formfesta væri til staðar. Það er eftir henni sem þingmaðurinn kallaði, festu í stjórnsýslunni, hann gagnrýnir frumvarpið m.a. á þeirri forsendu og vísar í 6. gr. frumvarpsins þar að lútandi.

Þungamiðjan í málflutningi hans var engu að síður dæmið sem hann tekur af Fiskistofu, sem mér fannst vera mjög áhrifaríkt og ég verð að segja það hér að ég hygg að málflutningur og málafylgja þessa þingmanns hafi haft sitt að segja um vonandi farsæla lausn á því máli. Það ber að þakka.

Ég vil víkja að einu atriði sérstaklega sem hann kom inn á og snýr að siðanefndinni sem verið er að leggja niður. Þingmaðurinn sagði að sú siðaregla sem mestu máli skipti eða það viðmið sem menn helst ættu við að styðjast í því efni héti heilbrigði skynsemi. Þá er spurningin þessi: Er ekki heilbrigð skynsemi nokkuð sem þarf að næra? Er ekki heilbrigð skynsemi nokkuð sem þarf að vinna með? Var það ekki einmitt það ferli sem kveðið var á um í lögunum og er nú verið að nema þaðan brott? Hvert er álit hv. þingmanns á því?