144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða og upplýsandi ræðu. Mig langar til að spyrja hann, vegna þess að hann er formaður Samfylkingarinnar, út í orð sem hæstv. forsætisráðherra lét falla á síðasta kjörtímabili, nánar tiltekið í maí 2011, þar sem rætt var einmitt um breytingar á Stjórnarráðinu og tillögu sem þá var til umfjöllunar í þinginu. Þá lét hæstv. forsætisráðherra þessi orð falla, þáverandi hv. þingmaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með leyfi forseta:

„Til að koma með dálítið innlegg í alla þessa umræðu um sáttfýsi, samstöðu og samvinnu geri ég það að tillögu minni hér að allir flokkar á Alþingi sammælist um að hefja í sameiningu vinnu við breytingar á Stjórnarráði, breytingar á skipulagi ráðuneyta, sem miði að því að auka á sérhæfingu þannig að sérfræðiþekking verði næg til að takast á við þau stóru verkefni sem bíða munu ráðuneyta á næstu missirum og árum og miði að því að ráðuneytin og stofnanir verði í þjónustu við almenning. Ef við gætum sammælst um að hafa þetta tvennt að leiðarljósi, annars vegar að skapa þennan faglega styrk ráðuneytanna, gera þau í stakk búin til að takast á við verkefnin sem ráðuneytin þurfa að sinna tæknilega séð og hins vegar varðandi þjónustuna erum við komin með góðan byrjunarpunkt.“

Mig langar að spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason um það samstarf sem fór fram í anda þeirrar sáttfýsi, samstöðu og samvinnu sem hæstv. forsætisráðherra talaði um þegar hann var þingmaður á síðasta kjörtímabili. Hvernig birtist samstarfið hv. þingmanni? Er samstaða um þetta mál?

Hæstv. forsætisráðherra sagði líka í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Það er svo mikilvægt þegar svona breytingar eru gerðar að menn séu almennt sammála um þær. Þær þurfa að halda gildi sínu burt séð frá því hverjir eru í ríkisstjórn á hverjum tíma.“

Þetta varð sígilt um leið og það var sagt, (Forseti hringir.) en mig langar að spyrja um samstarfið sem átti sér stað um þær tillögur sem ég nefndi hér.