144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ábendinguna og ég mun sannarlega gera það. Ég vil þó segja að ég held að það sem hæstv. forsætisráðherra gagnrýndi á síðasta kjörtímabili hafi ekki verið að öllu leyti rétt hugsað, þ.e. að ég held að ríkisstjórn á hverjum tíma eigi að hafa umtalsvert svigrúm hvað varðar innra fyrirkomulag Stjórnarráðsins, eigi að geta ráðið flutningi málefna á milli ráðuneyta, þó að manni finnist það auðvitað koma nokkuð ankannalega niður þegar menningu er skipt niður í þjóðmenningu og óþjóðlega menningu, en að ríkisstjórn eigi í grunninn að hafa mikið svigrúm til slíkra breytinga. En starfsstöð opinberra stofnana sem sinna þjónustuverkefnum við almenning er allt annað en kanselí stjórnarherranna. Það eru efnisrök fyrir því að ráðuneytin sjálf, sem þjóna hinu pólitíska valdi og vinna (Forseti hringir.) í framhaldi að því, að þar hafi ráðherrarnir mikla stjórn en það er ekki eins einhlítt með stofnanirnar.