144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og tók einmitt eftir þessu í umfjöllun meiri hlutans. Það er mjög athyglisvert því að þar rekur meiri hlutinn sjónarmiðin sem koma fram og falla öll gegn þessari rýmkun heimildarinnar, en kemst svo að þeirri niðurstöðu að það eigi samt að gera þetta vegna tvenns. Annars vegar að ef starfsmaður færist úr einu starfi í annað losnar starfið sem hann var í og þarf þá að öllu jöfnu að auglýsa það, og hins vegar að heimilt hafi verið að færa embættismenn ríkisins milli embætta allt frá lýðveldisstofnun og reynslan af heimildinni frá 2011 þyki góð.

Um þetta tvennt hef ég verulegar efasemdir að standist. Varðandi hið fyrra, að ef menn eru fluttir á milli að þá losni annað starf sem þarf að auglýsa, þá er það svo að heimild til flutninga manna milli starfa hefur vissulega verið til frá lýðveldisstofnun og alla vega hin síðustu ár en þessi ríkisstjórn hefur verið að útvíkka hana til að komast hjá auglýsingaskyldu. Hæstv. þáverandi innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir skipaði núverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu með flutningi úr starfi þrátt fyrir að starf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu væri laust. Spurningu minni um það hér í þinginu svaraði hæstv. ráðherra með því að hún hefði gert þetta á grundvelli flutningsheimildar og benti þá á að ég hefði einu sinni flutt ráðuneytisstjóra um leið og forsætisráðherra flutti ráðuneytisstjóra þegar ég var félagsmálaráðherra. Þá var verið að flytja menn á milli embætta þannig að menn voru að hafa stólaskipti. Það eru mörg fordæmi fyrir að heimildir séu nýttar með þeim hætti. En ríkisstjórnin hefur verið að nýta þessa heimild til að komast hjá auglýsingaskyldunni beinlínis.

Ég verð að segja eins og er að ég hef alveg sjónarmið um að það sé skynsamlegt að auka á svigrúm til þess að færa menn á milli (Forseti hringir.) en ég tek líka eftir því sem félög opinberra starfsmanna segja, að það sé erfitt fyrir þá sem eru í störfunum að synja því að „þiggja“ flutning.