144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í þessum síðustu orðaskiptum um að margt væri órætt og óljóst hvað varðar ráðherranefndir og lögfestingu þeirra. Þetta er einn þáttur frumvarpsins sem þarf að skoða mun betur.

Mér þótti góð röksemdafærsla hv. þingmanns þegar hann vék að því sem fram kemur í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar varðandi svokallaðar siðanefndir, að þar í álitinu mæra menn verkefni og verkferla en leggja þá síðan af í tillögum sínum um lagabreytingar.

Það sem ég vildi þó fyrst og fremst spyrja um varðar óskir hv. þingmanns um að málið gangi aftur til nefndar eftir lok 2. umr. Ég vek athygli á því að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir setti fram svipaðar óskir hér í dag. Ég vil spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason hvað það er sem hann telur að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þurfi sérstaklega að setjast yfir. Nú er það svo samkvæmt þingskapalögum að óski einn þingmaður eftir því að mál gangi til nefndar að lokinni 2. umr. skal það gerast. En jafnvel óháð því þá þykir mér eðlilegt að komi fram slíkar óskir verði orðið við slíkum kröfum.

Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur málið fengið mjög góða umræðu og afstaða skýr, en við höfum engu að síður verið að leiða ýmis mál fram í dagsljósið við þessa umræðu, þótt farið sé að kvölda, og ástæða fyrir nefndina að gaumgæfa, nú síðast þennan þátt varðandi ráðherranefndirnar svo dæmi sé tekið. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvað það er sérstaklega sem hann telur að þurfi að leggjast yfir.