144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta mál snýst ekki um það hvort allar stofnanir ríkisins séu rétt staðsettar í Reykjavík eða ekki. Þetta mál snýst í raun og veru um það hver eigi að ákveða og hvernig eigi að ákveða staðsetningu stofnana.

Það sem við fjöllum um hér er í raun endapunkturinn á einu af fjölmörgum pólitískum klúðrum Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili. Fyrst þegar menn byrjuðu að ræða um flutning Fiskistofu voru forsvarsmenn Framsóknarflokksins sannfærðir um að enga lagabreytingu þyrfti til, það þyrfti ekki að koma til sérstakrar umfjöllunar í þinginu eða hafa formlega heimild fyrir ráðherra að flytja stofnanir með þessum hætti. Það sem við erum að fást við núna er sönnun þess að þeir hafa áttað sig á því, eða einhver hefur bent þeim á það, að það stæðist ekki skoðun, það yrði að vera lagagrundvöllur fyrir slíku. Þess vegna er búið að smíða inn í þessi lög um Stjórnarráð Íslands heimild fyrir ráðherra til þess að flytja stofnanir einhliða eitthvert annað en þar sem þær eru eða ákveða staðsetningu þeirra.

Ég held því að allir séu sammála um að það er ekkert lögmál að stofnanir eigi að vera í Reykjavík. Þetta mál snýst í grunninn um það hvernig við ákveðum þetta, hvort það sé gert með opnum og lýðræðislegum hætti á vettvangi Alþingis í formi þess að menn geri lagabreytingu, flytji þingsályktun eða eitthvað slíkt. Er þetta ekki réttur skilningur hjá mér, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir?