144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, við getum alveg verið sammála um það. Mér fannst bara rétt að fara vel yfir það og undirstrika að ekkert í málflutningi okkar, sem gagnrýnum þetta frumvarp, snýst um það að við séum á móti því að hægt sé að staðsetja stofnanir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Það getur oft misskilist, þegar þessi umræða fer fram, að menn séu bara yfir höfuð móti því að Fiskistofa fari til Akureyrar og nóg sé komið af því að allt verði vitlaust hér á höfuðborgarsvæðinu ef á að hreyfa eitthvað við störfum hér en þegar störfin flæða, án þess að nokkur taki eftir því, frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins þá heyrist ekki bofs í þingmönnum, hvort sem er höfuðborgarinnar eða landsbyggðarinnar. Mér finnst bara rétt að undirstrika þetta.

Eins og ég sagði hér áðan þá er ég sem landsbyggðarþingmaður mjög gagnrýnin á þessi vinnubrögð hæstv. sjávarútvegsráðherra því að hann hefur sett á þetta vondan svip og svona lagað á ekki að gera. Það á að undirbúa hugsanlegan flutning stofnana vel og gera það á lýðræðislegan máta með starfsfólki og inni á Alþingi í vinnu þar á tilheyrandi stöðum. Það er ekkert lögmál sem segir að ekki sé hægt að skoða flutning einhverra stofnana frá landsbyggð til höfuðborgar eða öfugt. Það þarf bara allt að vinnast á vettvangi réttra aðila og hafa það í huga að menn séu ekki að stytta sér leið eins og hæstv. ráðherra ætlar sér að gera. Ég vil undirstrika það í þessari umræðu að við erum að gagnrýna hvernig að þessu er staðið og það er mín gagnrýni.