144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir kosningar leggja flokkar fram stefnuskrá sína. Á stefnuskrá margra flokka getur verið að stuðla að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og flutningi opinberra verkefna út á landsbyggðina eða flutningi stofnana sem alveg eins ættu heima á landsbyggðinni. Menn eru þá að fylgja eftir sinni stefnu, hver og einn. En þegar menn komast til valda verða menn að horfast í augu við það að þeir verða að vinna eftir þeim lögum og ferlum sem þeir eiga að gera, hvort sem er gagnvart löggjafanum eða gagnvart starfsfólkinu.

Menn komast ekkert undan því með því að setja hausinn undir sig og ætla bara að knýja málin í gegn og í raun eyðileggja fyrir því að hægt sé að vinna að því að flytja og fjölga opinberum störfum úti á landi. Þannig held ég að hæstv. forsætisráðherra hafi því miður eyðilagt fyrir þessu verkefni.