144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það bara vera mjög dapurlegt að hæstv. forsætisráðherra velji að þurrka þessa vinnu út með þessum hætti. Þetta er vinna sem unnin var á síðasta kjörtímabili sem mér finnst að allir geti sammælst um að hafi verið af hinu góða og sé mjög þörf, eins og hv. þingmaður rakti hér ágætlega. Hér er lagt til að fella niður 25. gr. laganna sem varðar samhæfingarnefnd, en að forsætisráðuneytið taki að sér verkefni hennar. Það er í fyrsta lagi ekkert sem rökstyður að það sé gert eða sagt hvaða breytingar það muni hafa í för með sér. Ég tel að þarna verið að senda þjóðinni, kannski ekki puttann en svona næstum því, með því að gera þetta þegar er kallað eftir því alls staðar í þjóðfélaginu að siðferðisleg viðmið séu höfð alls staðar innan hins opinbera geira, að siðareglur séu hafðar til hliðsjónar, hvort sem það er hjá okkur þingmönnum, ráðherrum eða innan stjórnsýslunnar, að alls staðar séu þessi viðmið sem hægt sé að horfa til því að þótt hægt sé að segja að allir eigi að nota heilbrigða skynsemi er bara mjög gott að hafa slíkar reglur sem viðmið til að vinna eftir. Það auðveldar öll samskipti á milli manna og innan stofnana þegar slíkir ferlar liggja fyrir er miklu minni hætta á að eitthvað beri út af. Við höfum bara svo fjöldamörg dæmi um að þessi mál hafa ekki verið í nógu góðu lagi og við þurftum svo virkilega sem samfélag að fara að lyfta hærra þessum viðmiðum um siðferði.