144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég gæti ekki verið meira sammála. Það sem er að gerast þarna í þessu frumvarpi er meiri valdsamþjöppun inn á miðjuna, meira vald til ráðherra, til forsætisráðherra, ekki bara varðandi siðareglurnar heldur almennt um ákvarðanatöku ríkisstofnana o.s.frv. Það er nokkuð sem fólk vill ekki sjá. Það vill ekki sjá þessa valdsamþjöppun. Það treystir því ekki að ráðherrar eða sama hverjir það eru, þeir sem fara með valdið fari með það einir eins og þeim sýnist og það er nokkuð sem við sjáum mjög sterka kröfu um í samfélaginu, þ.e. að valdinu sé dreift, að það sé ekki misnotað og að því sé veitt aðhald.

Stjúpafi minn var ofursti í bandaríska hernum. Einhvern tíma eftir að hafa lesið mikið Noam Chomsky og um utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem er frekar blóðug spurði ég hann: Trúirðu því virkilega að forseti Bandaríkjanna geti ekki verið spilltur? Hann sagði: „No, they educate this people.“ Nei, þau mennta þetta fólk. Það er hin heilbrigða skynsemi sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason nefndi hér áðan. (Forseti hringir.) Nei, það að mennta fólk og hafa heilbrigða skynsemi er ekki nóg til að stöðva spillingu. (Forseti hringir.) Eitt af því sem hjálpar til við það er að hafa eftirlit fagaðila, sem (Forseti hringir.) verið er að fella úr lögunum núna.