144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kallar eftir óskalista mínum ef ég væri ráðherra og hefði það vald að ákveða hvaða stofnanir færu í mitt kjördæmi. Ég ætla nú ekki að detta í þann drullupytt sem hv. þingmaður setur fyrir framan mig en ég vil segja það að ég tel að stofnanir sem tengjast viðkomandi svæðum atvinnulega gætu átt þar heima. Á Vestfjörðum er sem betur fer enn þá öflugur sjávarútvegur og margt hefur vaxið og dafnað í kringum hann, mörg sprotafyrirtæki og afleidd starfsemi sem hefur þróast í kringum það og hafsækin starfsemi, einhverjar stofnanir á þeim vettvangi, gæti vel átt þar heima eða miklu öflugri útibú en eru þar í dag.

Á Vesturlandi er mjög öflugur landbúnaður og þar væri hægt að taka á verkefnum sem tengdust slíku og Norðurland vestra er auðvitað blandað sjávarútvegs- og landbúnaðarsvæði og þar er hægt að taka við ýmsum verkefnum. Ég nefni til dæmis Hvammstanga. Nú er verkefni varðandi Búnaðarstofu eða útreikninga á vegum landbúnaðarins sem á að flytjast til Matvælastofnunar, ég gæti alveg séð fyrir mér að það verkefni gæti verið vistað á Hvammstanga sem dæmi. En þetta þurfum við allt að skoða með lýðræðislegum hætti á Alþingi og vera ekkert feimin við það. Mér leiðist þetta kjödæmapot sem er á báða bóga (Forseti hringir.) og það sé alltaf talað um kjördæmapot ef menn horfa til þess að byggja upp fjölbreyttari atvinnustarfsemi úti á landi á vegum hins opinbera.