144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga hér orðastað við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um atburð sem átti sér stað á árinu 2009 þegar þingmaðurinn var ráðherra. Í upphafi vil ég lesa hér upp 40. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Mig langar til að fara aftur til ársins 2009. Þá var komin mjög mikil gagnrýni á þann gjörning þáverandi fjármálaráðherra sem í raun var búinn að svipta Fjármálaeftirlitið valdheimildum sínum og var farið inn með samninganefnd til þess að semja um þær upphæðir sem fóru á milli gömlu og nýju bankanna á sínum tíma. Það skorti algjörlega lagastoð fyrir því samkvæmt neyðarlögunum og lögum um Fjármálaeftirlitið, en bætt var um betur og farið í það að afhenda kröfuhöfum gömlu bankanna eignarhlut íslenska ríkisins, sem var á þessum tíma 100% í eigu ríkisins.

Mjög mikil gagnrýni kom á þetta frá Ríkisendurskoðun, sem taldi að á árinu 2009 hefði engin lagaheimild verið til þess gjörnings að afhenda kröfuhöfum eignarhluti íslenska ríkisins í bönkunum — án lagaheimildar.

Það sem gerðist hér undir jól árið 2009 var að fjárlög og fjáraukalög voru samþykkt þann 21. desember. Það var svo klukkan 8 þann 21. desember að kvöldi að komið var með frumvarp í þingið. Það varð að lögum á hádegi daginn eftir (Forseti hringir.) þar sem fengin var eftirálagaheimild fyrir þeim gjörningi. Ég spyr því hv. þm Steingrím J. Sigfússon: Hvers vegna var þetta ekki sett inn sem 6. gr. heimild í fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010?