144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:24]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er margt sem mig langar að ræða hér í dag en tíminn er skammur. Má þar meðal annars nefna samninga Landsvirkjunar við stóriðjufyrirtækin á Grundartanga, en mikil óvissa ríkir núna þar sem hnútur virðist vera í viðræðum aðila. Mikilvægt er að úr leysist sem allra fyrst því þarna er um að ræða upp undir 2 þús. störf á Grundartangasvæðinu og svæðinu allt um kring. Starfsemi þessara fyrirtækja hefur jákvæð áhrif á margvíslega þjónustu víðs vegar á Vesturlandi og þó víðar væri leitað. Mig langar einnig að vekja athygli á þeim hægagangi sem er hér í þinginu þessa dagana. Langar umræður eru um hvert og eitt þingmál þar sem sami hluturinn er sagður oft og mörgum sinnum og það virðist sem svo að tilgangurinn sé einn að tefja umræðurnar, en kannski er tilgangurinn annar, hver veit. Einnig langar mig að lýsa yfir áhyggjum mínum af stöðu kjaramála hjá þeim starfsstéttum sem eru í verkfalli. Ég vona svo sannarlega að samningsaðilar leysi sem allra fyrst úr stöðunni á farsælan hátt fyrir alla aðila.

Einnig langar mig að ræða þær jákvæðu fréttir sem bárust í kjölfar kjarasamninga. Þær voru þær að eitt helsta baráttumál Framsóknarflokksins um að koma á fót raunhæfu vali á húsnæðismarkaði er að verða að veruleika. Það birtist meðal annars í því að byggja á 2.300 íbúðir næstu fjögur árin fyrir tekjulágar fjölskyldur á leigumarkaði. Kerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum. Hér er um að ræða umfangsmestu aðgerðir að uppbyggingu á slíku kerfi í um 50 ár. Samhliða þessu er félags- og húsnæðismálaráðherra að leggja fram frumvarp um stórauknar húsnæðisbætur til leigjenda. Gaman og raunar ánægjulegt er að sjá fréttir á vef ASÍ þar sem ASÍ fagnar þessum tillögum ríkisstjórnarinnar við kjarasamninga og heyrst hefur að innlegg ríkisstjórnarinnar hafi verið sá lokapunktur sem þurfti til að (Forseti hringir.) klára þessa mikilvægu samninga.