144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[10:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist, eins og þetta er lagt upp, það vera afar óljóst af hverju verið er að gera þessar breytingar. Ef hugmyndin er sú að verkefnið eigi að vera það sama en það sé bara forsætisráðherrann sem eigi að halda utan um það, þá hlýtur að vera gengið út frá því, eins og hv. þingmaður nefnir, að forsætisráðherrann geti ekki gert nein mistök og hann sé hafinn yfir allan vafa um alla hluti og hann þurfi ekki á aðhaldi og ábendingum að halda hvað þetta varðar.

Siðareglurnar ganga einhvern veginn út á það að þær eigi smátt og smátt að skapa góðar venjur og þegar menn séu á gráu svæði, eða þegar eitthvað er að gerast í ríkisstjórn eða í stjórnsýslunni annars staðar, geti þessi siðanefnd komið inn með ábendingar og gefið síðan skýrslur og fjallað um mál. Um leið og siðanefndin útbýr reglur, eins og hún hefur verið að gera, þá er hún líka aðhald og til þess fallin að ýta undir traust. Traust er eitthvað sem við þurfum á að halda í þessu samfélagi eftir efnahagshrun. Það er ekkert undarlegt að þetta hafi einmitt komið í lög stuttu eftir hrunið sem ein leið til að ýta stoðum undir aukið traust á stjórnvöldum og stjórnsýslunni.

Ég held að það að færa þetta yfir til forsætisráðherra og láta eins og hann sé almáttugur sé ekki til þess fallið að auka traust.