144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það mjög skýrt að forsætisráðherra sem telur sjálfan sig hafinn yfir vafa er þá staddur í þeim heimi að það er óvarlegt að fela honum siðferðislegt mat á gjörðum annarra. Mér finnst það liggja ljóst fyrir. En mig langar að spyrja hv. þingmann um annað og það varðar stöðu þessa frumvarps á þeirri tímalínu sem við erum stödd núna, þ.e. í ljósi þeirra kjaradeilna sem standa yfir og sérstaklega við Bandalag háskólamanna. Það kemur fram í umsögn að BHM leggist alfarið gegn frumvarpinu. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að Bandalagið hefur sérstaklega áhyggjur af þessari útvíkkun heimilda til að flytja starfsmenn milli ráðuneyta og stofnana og telur að það samræmist ekki góðri skipan mála og telur að það þurfi að vera í ríkara samráði við starfsmenn en hér er lagt til.

Ég vil biðja hv. þingmann að greina frá skoðunum sínum á því hvers konar innlegg það er í kjaradeilur þær sem standa yfir að leggja til að samþykkt verði að stórauka heimildir Stjórnarráðsins til að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta og stofnana, þá sömu starfsmenn og vonandi er verið að reyna að ná samningum við. Á sama tíma og verið er að reyna að semja er verið að reyna ná samkomulagi um að halda áfram með þetta frumvarp í því skyni að fá það samþykkt þegar bandalögin bæði, BHM og BSRB, hafa lýst eindreginni andstöðu við þetta mál.