144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum nú í miðjum klíðum í góðri umræðu um mál sem er í sjálfu sér furðulegt að skuli vera á dagskrá, vegna þess að ég get ekki ímyndað mér að þetta sé forgangsmál í þeim kringumstæðum sem nú eru uppi. Við erum komin út úr dagskrá þingsins, starfsáætlun er lokið. Þetta er mál sem er afgreitt út úr nefnd í ósætti vegna þess að minni hlutinn hefur lýst sig andsnúinn málinu enda er um að ræða gríðarlega mikið vald sem verið er að færa til forsætisráðherra sem er langt frá því að vera hafið yfir vafa.

Ég velti fyrir mér hver sé eiginlega framvindan að mati forseta. Við erum að halda í morgun sex mismunandi nefndafundi á sama tíma; sex nefndir, bæði A- og B-nefndir eru að funda á sama tíma. Við höfum ítrekað farið þess á leit forseta að hann reyni að ná böndum yfir það sem þó er á hans valdi að reyna að ná böndum yfir, þ.e. skipulag nefndastarfa. Aukinheldur vil ég velta upp spurningunni að því er varðar samráð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það með hvaða hætti við ætlum að ljúka hér þingstörfum í vor í ljósi þess að starfsáætlun er á enda.