144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég man nú ekki hvort það var í þessari viku eða undir lok þeirrar síðustu að formenn stjórnmálaflokkanna funduðu og lagður var fram listi yfir 70 forgangsmál. Það er að frétta af þeim lista að velferðarnefnd gengur ágætlega að vinna í þeim anda en við fáum ekki fundatíma.

Nú er ég ekki sammála þessum 70 forgangsmálum og er ekki að gefa neitt út um það. En það er mjög skrýtið að fólk sem er í þeirri firru að það haldi að það fái þá í gegn 70 mál skapi þá ekki skilyrði til að hægt sé að vinna í þessum málum. Við erum hér í einhverri stöðu sem gæti heitið Beðið eftir Godot: Hvert er markmiðið, hvað á að gera hér og hvenær eigum við að fá skýrar línur um dagskrá og mögulegan tíma í nefndum til að ljúka þó þeim málum sem hægt er að ljúka?