144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eitt er staðan hér í þingsal, sem glæðir svo sem ekki vonir manns um að hægt sé að ná samkomulagi alveg í bráð, en hitt er síðan staðan í nefndum þingsins. Mér finnast það ekki jákvæð teikn um samstarfsvilja af hálfu stjórnarmeirihlutans þegar við erum komin svona langt inn í þing sem í reynd á að vera lokið og það vottar ekki fyrir því í sumum nefndum þingsins að nokkur viðleitni sé til að taka á dagskrá mál sem koma frá stjórnarandstöðunni en jafnframt flutt af öðrum þingmönnum, þar sem allar umsagnir eru jákvæðar, og gefa til kynna hvort það sé ætlunin eða vilji til að afgreiða þau. Það finnst mér mjög miður og það eykur mér ekki viljann til samstarfs hvorki í viðkomandi nefndum né heldur hér, ekki heldur þegar farið er að bera á því að þingmenn stjórnarliðsins í viðkomandi nefndum vilja heldur ófrið en reyna að klára mál í sátt.