144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér er, eins og venjulega undangengin sex ár, uppi sú staða að það stendur ekki á fimm þingflokkum hér á þinginu, þ.e. öllum þingflokkum, held ég að óhætt sé að fullyrða, nema þingflokki Framsóknarflokksins, að reyna að finna leið til að ljúka þingstörfum farsællega. Það er hinn hefðbundni, árstíðabundni gleðileikur sem hér er hafinn á Alþingi sem gengur undir nafninu „Beðið eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni“ sem er einfaldlega sá þeirra 63 einstaklinga sem hér vinna sem erfitt er að ná til samninga og fá til viðræðna um það hvert menn eigi að halda. Það er auðvitað hægt að hafa ákveðinn skilning á því þessa dagana að það séu aðrir hlutir sem forsætisráðherra þurfi að huga að en þá er rétt að gera einfaldlega hlé á störfum þingsins þangað til forusta ríkisstjórnarinnar veit hvað hún vill, hvenær hún vill það og hvort hún vill það.