144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er svolítið dapurlegt að þurfa að vera í þessari stöðu og vera að ávarpa hæstv. forseta varðandi framkvæmd þingsins, hafandi í huga þá ræðu sem hæstv. forseti flutti í upphafi þings um að mál ættu að berast fljótt inn í þingið og það ætti að vinna á skilvirkari hátt að þeim. Í millitíðinni hefur það að gerst að hvert stórmálið á fætur öðru hefur verið í ágreiningi á milli stjórnarflokka. Við erum með samgönguáætlun sem er nýkomin inn í þingið og hefur beðið í mánuð eftir afgreiðslu, þannig að hæstv. forseta er vorkunn.

Hæstv. forseti ítrekar aftur og aftur að hann sé að reyna að hlutast til um að nefndir geti fundað, en um hvað eiga nefndirnar að vera að funda? Við erum með stórmál þar inni og við eigum að hamast við að moka í fötuna botnlausa. Við höfum ekki hugmynd um hvað af þessum málum á að afgreiða, ekki hugmynd. Eigum við þá að klára þau öll? Ætlar hæstv. forseti að vera hér (Forseti hringir.) fram á haustið til að ná þessum 140 málum í gegn, það eru 50 komin af þeim? Út af fyrir sig væri það mikilvæg yfirlýsing, þá skulum við bara halda áfram að moka, en tilgangsleysið er algert eins og það er núna.