144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég hef ekkert út á fundarstjórn hæstv. forseta að setja, ég tel hann stýra þinginu af miklum myndarskap og vil leggja til að við höldum áfram með dagskrána, enda er af nógu að taka.

Ég hjó eftir því að fulltrúi Pírata í þessari umræðu, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, lagði til að helmingur mála yrði skorinn út af þeim lista sem lagður hefur verið fram. Ég hélt að umræður okkar snerust um málefnið en ekki fjölda þeirra mála sem hér eiga að fara í gegn, þannig að mér þykir þetta afskaplega sérstök athugasemd.

Ég vil vera með örstutta sögustund. Ég hef verið á þingi í sex ár. Við þinglokin er alltaf sami óróleikinn í stjórnarandstöðunni þegar listinn kemur fram, sama hverjir eru í stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Listinn inniheldur yfirleitt öll þau mál (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og ætlar sér að ná í gegn og ég held að menn ættu að einbeita sér að því sem máli skiptir í þessari umræðu og ræða um fundarstjórn forseta, en ekki vera með leikaraskap í pontu.