144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er slæmt að þurfa að horfast í augu við það að við erum í raun og veru í gíslingu hæstv. forsætisráðherra. Það beinast öll spjót að æðsta manni ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra. Hann er verkstjóri þessarar ríkisstjórnar og hann veldur ekki hlutverki sínu. Þannig er bara veruleikinn. Og flokkur hans, Framsóknarflokkurinn, verður annaðhvort að setja inn staðgengil eða grípa í taumana. Það er ekki hægt að ætla þessu þingi það að vera undir einhverjum frekjukallayfirgangi, mönnum sem hafa aldrei þurft að gefa neitt eftir og kunna ekki að semja sig í gegnum hlutina. En veruleikinn virðist vera þannig að hæstv. forsætisráðherra höndlar ekki það hlutverk sem honum hefur verið treyst fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þá verða menn að grípa inn í og ég set traust mitt á hæstv. forseta þingsins, sem er verkstjóri okkar sem vinnum á þessum vinnustað.