144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að það væri mikilvægt ef við gætum fengið umræðuna sem var hér líka þegar menn voru að semja og sögðu: Þið farið í gegn með sjö mál, þá voru 70–80 á listanum, veljið þið. (Gripið fram í.) Veljið þið, sjö, auðvitað voru mörg mál á listanum þegar byrjað var, ekki forgangsmálin. En það sem verið er að gera hér, við vitum að það eru mál hér sem eru með eitt nefndarálit og við höfum sagt það vegna framkomu fyrri stjórnarandstöðu, þá finnst mér ekki koma til greina annað en við förum í gegnum öll mál sem eru ágreiningslaus þannig að við sitjum ekki uppi með EES-mál sem hafa beðið ár eftir ár af því að fyrrverandi stjórnarandstaða hleypti þeim ekki í gegn. Við viljum breyta þessu, en við vitum líka að fimm til tíu mál eru í miklum ágreiningi, mismiklum, og sum af þeim eru í svo miklum ágreiningi af því að menn hafa látið sér detta í hug að hjálpa þinginu, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson, með því að kasta sprengjum inn og beita svo ofbeldi í þinginu til að reyna að fá þau í gegn, fengið „backup“ eða stuðning frá sem sagt sínu liði.

Tökum málin í gegn sem er enginn ágreiningur um, skilgreinum þau mál sem er ágreiningur um og semjum um það hvernig þeim verður lokið. Auðvitað fara sum af þeim í gegn, auðvitað fara þau mál í gegn, sum þeirra, (Forseti hringir.) en það er ofbeldi þegar menn koma inn á milli umræðna með gjörnýjar tillögur.