144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eftir því sem maður hugsar þessi mál meira þá sér maður auðvitað að stefna undanfarinna ára í þessum málum hefur verið mjög tilviljunarkennd og undir hælnum á ríkisstjórn eða ráðherra hverju sinni þegar menn hafa ákveðið að setja niður starfsemi einhvers staðar í landinu. Oftar en ekki hefur það verið mjög nálægt viðkomandi ráðherra, í hans kjördæmi, og kannski ekki alltaf mikil fagleg þekking eða undirbúningur sem þar liggur á bak við.

Auðvitað á að vera einhver opinber stefna varðandi þetta stóra mál, að landið í heild sé kortlagt, hvaða staðir séu hentugir til að taka við starfsemi eða útibúi eða stofnunum, burt séð frá því hvað við segjum í þeim efnum, hvað liggi nær ákveðnu svæði að taka við en öðru. Þau svæði sem byggjast upp á sjávarútvegi eru hentugri en önnur til að taka við líkri starfsemi og landbúnaðarsvæði eru hentugri til að taka við stofnunum sem byggja á slíkri þekkingu.

Mér finnst að þetta eigi ekki bara að vera ákvörðun hvers og eins ráðherra heldur hugsað til lengri tíma, milli kjörtímabila, og horft á þessa kjarnastaði vítt og breitt um landið, og líka möguleika minni staða til að taka við fjarvinnsluverkefnum, þeirra sem geta í ljósi tækninnar eins og hún er í dag tekið við verkefnum af því tagi. En svona valdbeiting í þessu hleypir bara illu blóði í alla og þetta verkefni — þ.e. að reyna að dreifa og fjölga opinberum hálaunastörfum úti á landi í mörgum tilfellum, til að styrkja byggðir í leiðinni — hefur sett niður við þessi vinnubrögð hæstv. ráðherra. Mig langar að heyra hvað hv. þingmaður hugsar í þessum efnum.