144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað fer ekki hjá því að hlutir persónugerist alltaf á einhvern veg í stjórnmálum eins og annars staðar. Ég var nú ekki að tala sérstaklega um persónu hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hann er hins vegar forsætisráðherra og þá blandast það inn í. En það sem ég var að reyna að segja í fyrra andsvari mínu er að mér finnst þessi tenging við persónur einkenna um of mörg af störfum okkar, en það er kannski vegna þess að frekjufrumvörp af þessu tagi eru lögð fram að við förum að „súmmera“ inn á persónur og segja: Er þessari persónu treystandi fyrir þessu eða hinu?

Ef við tökum mál eins og það að afnema samhæfingarnefnd um siðferðislegar reglur þá gæti það verið þannig að tillaga af þessu tagi væri borin fram af einhverri manneskju sem við værum öll sammála um að væri skemmtileg fyrirmynd. Hvað munduð þið gera þá? Munduð þið þá segja: Já, fínt, vegna þess að þessari mannneskju er trúað? Kannski væri það heimspekingur eða siðfræðingur eða einhver slíkur sem sæti á forsætisráðherrastóli. Munduð þið þá segja: Já, það er allt í lagi vegna þess að þarna er fín manneskja sem er treystandi til að fara með þetta vald. Það er nefnilega einmitt það sem við megum ekki gera, vegna þess að þegar við setjum lög, eins og til dæmis varðandi það að afnema svona samhæfingarnefnd, verðum við að gera ráð fyrir því að alls konar fólk geti komið þarna inn. Og það er það sem mér finnst að löggjöfin eigi svolítið að snúast um. Við þurfum þess vegna að rífa okkur (Forseti hringir.) frá því að tengja hana alltaf við persónur.